145. löggjafarþing — 90. fundur,  17. mars 2016.

hagsmunaskráning þingmanna.

[10:51]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegi forseti. Það má segja að það sé að mörgu leyti bagalegt að hæstv. forsætisráðherra sé ekki til svara hér í dag. En fyrst hann er ekki hér langar mig til að beina spurningum til hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra, ekki síst vegna þess að hann er formaður Sjálfstæðisflokksins, annars stjórnarflokksins í ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks.

Það eru svo mörg mál, eins og fram hefur komið í máli hv. þingmanna á undan mér, sem eru upp í loft og óljós og virðist vera djúpur ágreiningur um í ríkisstjórninni að maður veit eiginlega ekki á hverju maður á að byrja. Í gær samþykktum við siðareglur fyrir alþingismenn. Þar segir að alþingismenn eigi að greina frá öllum hagsmunum sem þeir eða fjölskyldur þeirra hafa af afgreiðslu mála hér.

Á þessu kjörtímabili höfum við eytt miklu púðri og miklum kröftum í að tala um höftin, uppgjör gömlu bankanna, stöðu erlendra kröfuhafa. Það eru miklir peningalegir hagsmunir tengdir þessum málum. Við vitum öll að það skiptir miklu máli að þessi mál séu afgreidd með sem mestu trausti og að ákveðinn grundvöllur sé fyrir því að þar sé farsællega leyst úr málum.

Í ljósi þessa vil ég spyrja hæstv. fjármálaráðherra, sem hefur haft með haftamálin að gera, tveggja spurninga:

Finnst hæstv. fjármálaráðherra að forsætisráðherra hefði átt að láta þing og þjóð vita af því að kona hans væri erlendur kröfuhafi og þar með að fjölskylda hæstv. forsætisráðherra ætti verulega hagsmuni að gæta gagnvart því hvernig þingið afgreiddi þessi mál?

Vissi hæstv. fjármálaráðherra af því að kona hæstv. forsætisráðherra væri erlendur kröfuhafi? Taldi hann ekki ástæðu til að láta þing og þjóð vita af því?

Ég verð að spyrja þessara spurninga vegna þess að við vorum að samþykkja siðareglur hér í gær. Þingið stóð saman að því að samþykkja þessar siðareglur. Ef þessar spurningar eiga ekki erindi (Forseti hringir.) í umræðuna þá spyr ég: Af hverju ekki?