145. löggjafarþing — 90. fundur,  17. mars 2016.

aðkoma forsætisráðherra að samningum um slitabú föllnu bankanna.

[11:01]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég þakka þetta svar. Hins vegar kom ekki nógu skýrt fram hvort það væru einhverjir aðrir ráðherrar eða þingmenn sem ættu í einhverjum mögulegum hagsmunaárekstrum þegar kæmi að því að semja við slitabúin.

Eru fleiri ráðherrar sem eiga mögulega einhverjar eignir á Tortólu sem við eigum eftir að fá að vita meira um? Eru fleiri ráðherrar sem eiga mögulega einhverjar kröfur sem við eigum eftir að fá að vita um? Ég veit ekki betur en að samkvæmt öllum bestu reglum um fjármálastarfsemi þyki ekki góð regla að fólk sé beggja vegna borðsins. Varðandi samstarf, til að mynda samkvæmt því frumvarpi sem hæstv. fjármálaráðherra lagði fram um fjármálastarfsemi, þá eru hjón samstarfsaðilar. Voru gerðar viðeigandi ráðstafanir þegar kom að þeim pólitísku fulltrúum sem hér eru kjörnir varðandi allt þetta ferli?