145. löggjafarþing — 90. fundur,  17. mars 2016.

svar við fyrirspurn um Borgunarmálið.

[11:06]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Í því svari sem hér er vitnað til og liggur fyrir á þskj. 1003, 472. mál, er greint frá því að Landsbankinn er ekki stjórnsýslustofnun sem heyrir undir fjármálaráðherra. Þetta er hlutafélag með sjálfstæða stjórn. Síðan heldur Bankasýslan á hlutabréfum og hún hefur líka sjálfstæða stjórn. Ekki var við því að búast að svör við öllum þeim spurningum sem lagðar voru fyrir væri að finna í fjármálaráðuneytinu. Þess vegna hef ég í millitíðinni, frá því að spurningarnar voru lagðar fyrir þingið, óskað eftir því við Bankasýsluna að hún beiti sér fyrir því að allt það sem varðaði sölu Landsbankans á Borgun yrði upplýst eins langt og mögulegt er. Við því hefur verið brugðist.

Ég er ekki sammála hv. þingmanni þegar hann segir að í því þingskjali sem hér liggur fyrir felist ekki svör við spurningum eins og hvar og hvenær eignarhlutir í Borgun og Valitor hf. hafi verið auglýstir til sölu. Nú liggur fyrir að hlutirnir voru ekki auglýstir til sölu. Það ætti að vera alveg augljóst af fylgiskjölunum hér. Hlutirnir voru ekki auglýstir til sölu. Það hefur líka komið fram í opinberum gögnum, í bréfum frá Landsbankanum og í máli formanns bankaráðs. Staða málsins er einfaldlega sú að bankaráðið hefur nú athugasemdir Bankasýslunnar til umfjöllunar og hyggst bregðast við þeim og er beðið um að gera það innan skamms tíma.

Með þessum hætti legg ég mitt af mörkum til að fá fram í dagsljósið allt það sem varðar söluna á hlutnum í Borgun. Nýjast gerðist það að Landsbankinn telur forsendur fyrir málshöfðun vegna sölunnar. (Forseti hringir.) Að þessu leytinu til tel ég að ég hafi brugðist með sanngjörnum og eðlilegum hætti á allan hátt við erindi hv. þingmanns.