145. löggjafarþing — 90. fundur,  17. mars 2016.

Seðlabanki Íslands.

420. mál
[11:16]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að við séum að samþykkja þetta frumvarp. Ég held að þetta reki ákveðinn endahnút á farsæla lagasetningu Alþingis þegar kemur að því að gera upp gömlu búin og reyna að losa um höft, alla vega hvað varðar það stóra mál, uppgjör gömlu búanna. Ég þakka nefndinni fyrir mjög gott starf og hrósa hæstv. fjármálaráðherra fyrir framgöngu hans í málinu. En ég verð líka að segja af þessu tilefni að mér finnst alveg ótrúlegt að á sama tíma og hæstv. efnahags- og viðskiptanefnd og við þingmenn og í rauninni þjóðfélagið allt höfum verið að fjalla um þessi mál, þessa risastóru hagsmuni sem eru þarna undir, og við erum búin að velta upp alls konar leiðum til að taka á þessum málum, skuli það koma í ljós núna að hæstv. forsætisráðherra átti verulegra fjölskylduhagsmuna að gæta í þessu máli. Auðvitað hafa þingmenn allir sinn mælikvarða á það hvað er siðferðilega (Forseti hringir.) rétt og hvað er heiðarlegt. En í öllu falli, miðað við umfang þessa máls, storkar þessi framkoma algerlega mínum siðferðismælikvörðum.