145. löggjafarþing — 90. fundur,  17. mars 2016.

Seðlabanki Íslands.

420. mál
[11:21]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Samandregið í eina setningu þá fjallar þetta frumvarp um að heimila fjármálaráðherra að selja eða einkavæða allar þær eignir sem eru komnar vegna stöðugleikasamkomulagsins til ríkisins að undanskildum sjálfum bönkunum. Hér verður hafin, samþykki Alþingi þetta í dag, ein stærsta einkavæðing sem átt hefur sér stað í sögu þessarar þjóðar. Mér vitanlega hefur þingið ekki í höndum upplýsingar um hvaða eignir er þarna að ræða. Þetta eru hundruð eigna sem ríkið fékk í hendurnar og kröfuhafar létu af hendi í stað þess að fá að sleppa út. Mér finnst það ábyrgðarhluti af þingmönnum að fagna því sérstaklega að þannig sé haldið á málum að fjármálaráðherra skuli ætla að skipa þriggja manna stjórn eða félag — honum er heimilt að gera það, honum er ekki skylt að gera það samkvæmt frumvarpinu — og ráðast í þessa vegferð. Ég mun ekki greiða þessu máli atkvæði mitt.