145. löggjafarþing — 90. fundur,  17. mars 2016.

utanríkis- og alþjóðamál.

611. mál
[11:27]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Í dag flyt ég í þriðja sinn skýrslu utanríkisráðherra um utanríkis- og alþjóðamál sem um árabil hefur skipað veigamikinn sess í umræðum þingsins um þennan viðamikla og mikilvæga málaflokk. Af mörgu er að taka í þeim umræðum og bera efnistök skýrslunnar þess merki að síðustu missiri hafa verið einkar tíðindamikil þegar kemur að utanríkismálum, hvort sem horft er til alþjóða- og öryggismála, viðskiptamála, þróunarsamvinnu eða þjóðréttarmála. Bæði erlendis og á heimavelli hefur verið gnægð verkefna á sviði rekstrar- og borgaraþjónustumála.

Skýrslan er viðamikið plagg og sem fyrr vonast ég til að efni hennar nýtist þingmönnum vel. Nýmæli er að í skýrslunni er greint skilmerkilega frá helstu markmiðum í hverjum málaflokki fyrir sig og litið til þess sem gerast muni í nánustu framtíð. Er þetta mikilvæg viðbót í þessa skýrslugjöf enda brýnt að líta á veginn fram undan en ekki aðeins þær vörður sem hafa orðið á veginum fram að þessu.

Virðulegi forseti. Það liggur í hlutarins eðli að alþjóðlegt samstarf kallar á að allar þjóðir heims, stórar og smáar, sinni skyldum sínum og taki ábyrgð á því sem betur má fara. Á það að sjálfsögðu einnig við um okkur Íslendinga. Ein frumskylda stjórnvalda er að tryggja öryggi borgara, heima og heiman. Hryðjuverkaógnin hefur undanfarin missiri verið viðvarandi hjá nágrannaþjóðum okkar, hvort sem litið er til Norðurlandanna eða meginlands Evrópu. Hryðjuverkaárásirnar í París í janúar og nóvember, í Kaupmannahöfn í febrúar, í Tyrklandi og Bandaríkjunum og fleiri hliðstæðir atburðir á árinu 2015 höfðu mikil áhrif og minntu okkur á að ógnin virðir engin landamæri. Hryðjuverk bitna fyrst og fremst á saklausum borgurum. Atburðirnir sýna enn fremur að nauðsyn er fyrir þjóðir að vinna saman til þess að tryggja eigið öryggi.

Markmið hryðjuverkaafla er ekki síst að sá fræjum ótta og hrista stoðir grunngilda á borð við frelsi, lýðræði, umburðarlyndi og jöfn réttindi einstaklinga óháð trúarbrögðum eða uppruna. Viðbrögð alþjóðasamfélagsins eru ætíð á einn veg — að ekki verði gefið eftir í baráttunni gegn hryðjuverkum og að þessum grunngildum verði haldið á lofti. Þar er Ísland að sjálfsögðu ekki undanskilið og leggjum við áherslu á að við öxlum okkar byrðar.

Í þessu samhengi er rétt að minna á mikilvægi þess að Íslendingar setji sér áætlun um hvernig staðið skuli að öryggi borgaranna og vörnum landsins. Á síðasta ári mælti ég fyrir þingsályktunartillögu um þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland, en hún byggðist á tillögum þingmannanefndar sem skipuð var fulltrúum allra flokka á Alþingi, leidd af hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur, og starfaði á grundvelli þingsályktunar frá 2011 er forveri minn hafði lagt fram. Í tillögunni er mörkuð heildstæð stefna í öryggis- og varnarmálum til næstu fimm ára og í henni er horft jafnt til virkrar utanríkisstefnu, varnarstefnu og almannaöryggis og tilgreindir áhersluþættir á borð við aukna þátttöku í störfum Atlantshafsbandalagsins og varnarsamstarfið við Bandaríkin.

Slík stefnumótun er mikilvæg og markar í raun tímamót þar sem í fyrsta skipti frá lýðveldisstofnun eru stigin markviss skref í átt að heildstæðri stefnu um þjóðaröryggismál. Legg ég áherslu á að aldrei hefur verið jafn brýnt að stjórnvöld marki slíka stefnu. Fyrir herlaust land er afar mikilvægt að eiga traust samstarf við helstu bandamenn okkar um öryggi og varnir landsins. Atlantshafsbandalagið og varnarsamningurinn við Bandaríkin eru þannig með mikilvægustu stoðum í öryggis- og varnarviðbúnaði Íslands.

Hvað varnarsamninginn áhrærir hefur samvinna Bandaríkjanna og Íslands á sviði varnar- og öryggismála styrkst á ný undanfarin tvö ár, m.a. í ljósi versnandi horfa í öryggisumhverfi Evrópu. Munu íslensk stjórnvöld áfram tryggja rekstur og viðhald mikilvægs varnarviðbúnaðar á Íslandi sem er mikilvægur hlekkur í sameiginlegum vörnum Atlantshafsbandalagsins. Á síðustu missirum hefur Atlantshafsbandalagið unnið markvisst að því að laga sig að breytingum á öryggisumhverfi Evrópu í samræmi við ákvarðanir leiðtogafundarins í Wales árið 2014. Það er ljóst að bandalagsríkin standa frammi fyrir nýjum öryggisáskorunum. Annars vegar hafa aðgerðir Rússlands gagnvart Úkraínu og vaxandi umsvif rússneska hersins skapað spennu og áhyggjur fjölmargra bandalagsríkja, ekki síst í Austur-Evrópu. Hins vegar hefur uppgangur og aðgerðir íslamskra öfgamanna í Miðausturlöndum og Norður-Afríku valdið hörmungum og upplausn á svæðinu og ýtt undir öldu alþjóðlegra hryðjuverka eins og ég greindi frá áður.

Öryggisáskoranir á suðurlandamærum bandalagsins, í Sýrlandi, Írak og Norður-Afríku, eru fjölþættar og það er mikilvægt að halda því til haga að þær verða ekki leystar með hernaðaraðgerðum eingöngu. Öryggi fólks næst fyrst þegar öflum sundrungar er rutt úr vegi og fólki er tryggð lífvænleg tilvera sem byggist á frelsi, lýðræði, almennum mannréttindum, hagsæld og réttarríkinu. Í þessu ljósi má líta á röddu og framlag Íslands á alþjóðavettvangi. Friður, öryggi og þróun eru samofin.

Ein birtingarmynd þeirrar sundrungar sem stríðsátök kalla fram er straumur flóttafólks. Við fylgdumst með því á síðasta ári að ríflega 1 millj. manns flúði til Evrópu undan ógnarstjórn og átökum í Miðausturlöndum. Í Evrópu eygja flóttamennirnir von um friðvænlegri tilveru og betri lífsskilyrði. Ástandið er vissulega grafalvarlegt og mikil neyð hefur skapast vegna þessa. Ástandið í Evrópu er eitt en ef litið er til veraldarinnar allrar eru tölurnar sláandi. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna áætlar að um 60 millj. manna séu nú á vergangi eftir að hafa hrakist af heimilum sínum vegna stríðsátaka, náttúruhamfara eða slæms efnahagsástands heima fyrir.

Stríðsátökin í Sýrlandi, sem nú hafa staðið í á fimmta ár, hafa komið af stað bylgju flóttafólks sem er hin mesta frá því í lok síðari heimsstyrjaldarinnar. Talið er að nú séu um 6,6 millj. Sýrlendinga á vergangi í eigin landi og að ríflega 4,5 milljónir til viðbótar hafi flúið land. Mikill fjöldi sýrlenskra flóttamanna hefst nú við í vanbúnum flóttamannabúðum í nágrannalöndunum. Þá nálgast sýrlenskir flóttamenn sem sótt hafa til Evrópu nú 1 millj. einstaklinga, þar af eru ríflega 200 þús. börn og unglingar.

Ísland hefur lagt sitt lóð á vogarskálarnar og gripið til ýmissa aðgerða. Síðla árs 2015 ákvað ríkisstjórnin að veita 2 milljarða kr. til að bregðast við flóttamannavandanum og mun utanríkisráðuneytið þar af verja 750 millj. kr. til stuðnings alþjóðastofnunum og borgarasamtökum á vettvangi.

Í þessu samhengi vil ég rifja upp nýlega ferð mína til Ísraels og Palestínu en þetta var fyrsta ferð utanríkisráðherra til beggja ríkja síðan árið 2007. Tilgangur ferðarinnar var að kynnast stöðu mála á svæðinu af eigin raun og koma á framfæri lykilskilaboðum íslenskra stjórnvalda til deiluaðila um tveggja ríkja lausnina svokölluðu, virðingu fyrir alþjóðlegum mannréttindum og mannúðarlögum og fordæmingu á öllu ofbeldi. Heimsókn mín til Aida-flóttamannabúðanna í Palestínu og í Zaatari-flóttamannabúðirnar í Jórdaníu, nærri sýrlensku landamærunum, gaf innsýn í líf þessa fólks.

Hugtök sem okkur eru töm í umræðu um alþjóðamál á borð við almenn mannréttindi, frið og stöðugleika eru samofin. Þau grundvallast á því að fólk treysti hvert öðru og að fyrirsjáanleiki ríki í samskiptum. Ég hef sagt það áður úr þessum stól að fátt er betur til þess fallið að efla slíkt traust og fyrirsjáanleika en viðskipti þjóða á milli. Stöðu okkar sem smáþjóðar með afar útflutningsdrifið hagkerfi er þannig best borgið utan ríkjabandalaga og með frelsi til athafna á sviði fríverslunar, hvort sem er við erum ein okkar liðs eða með öðrum hætti, t.d. með EFTA.

Afar mikilvægur þáttur í þessu starfi er gerð viðskiptasamninga við önnur ríki þar sem leitast er við að skapa íslenskum fyrirtækjum og atvinnulífi sem greiðastan aðgang að erlendum mörkuðum. Þátttakan í Fríverslunarsamtökum Evrópu, EFTA, leikur eitt aðalhlutverkið í utanríkisstefnu okkar þegar kemur að viðskiptum þótt það fari ekki alltaf hátt. Það er eftirsóknarvert hlutskipti að geta, eins og við höfum getað gert, tekið þátt í Fríverslunarsamtökum Evrópu auk þess að gera okkur eigin samninga.

Við sjáum um þessar mundir að þess verður vart í auknum mæli að ríki, jafnvel mikilvæg viðskiptaríki Íslands, setji upp viðskiptahindranir, m.a. í því skyni að vernda innlenda matvælaframleiðslu eða sem hluta af aðgerðum til að efla slíka framleiðslu heima fyrir. Dæmi um slíkt eru vel þekkt og nærtækt að nefna Rússland og Nígeríu í þessu samhengi.

Utanríkisráðuneytið mun áfram leggja mikla áherslu á að styrkja net fríverslunarsamninga líkt og kveðið er á um í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Í því efni er sérstaklega horft til þess að ljúka gerð fríverslunarsamninga við nýmarkaðsríki í Asíu, hraða gerð samninga við Mercosur í Suður-Ameríku og hefja endurskoðun samnings EFTA og Kanada. Að sjálfsögðu er Japan líka á þessum lista, svo ég taki það sérstaklega út.

Einnig er mikilvægt að undirstrika að yfir stendur vinna við að greina hagsmuni Íslands sem tengjast þróun fjölþjóðlegra viðskiptasamninga sem Ísland er ekki aðili að en kunna að standa opnir fyrir aðild nýrra ríkja. Verður kastljósinu einkum beint að samningi Kyrrahafsríkja, svokölluðum TPP, og samningi ESB og Bandaríkjanna, sem við köllum TTIP.

Útflutningsþjónusta ráðuneytisins er afar mikilvægur hluti starfseminnar og á næstunni verður áfram lögð áhersla á að þjóna sem best íslenskum fyrirtækjum á erlendum mörkuðum. Á þetta bæði við um fulltrúa frá utanríkisráðuneytinu sjálfu eða sendiskrifstofum þar sem viðskiptafulltrúar gegna lykilhlutverki. Stuðla þeir þannig að frekari vexti íslenska hagkerfisins. Hagsmunaaðilar, fyrirtæki og einstaklingar sem notið hafa góðs af þessu mikilvæga starfi þekkja það að nauðsynlegt er að styrkja þessa starfsemi enda sókn íslenskra aðila á erlendum markaðssvæðum afar blómleg.

Mikilvægustu þjóðréttarmálin sem utanríkisráðuneytið sinnir eru hafréttarmálin. Þau hafa löngum skipað stóran sess í utanríkismálum Íslands og hefur Ísland ávallt verið framarlega í alþjóðlegu samstarfi á þessu sviði. Við eigum mikið undir því að þessi málaflokkur og lagaramminn þróist með hagfelldum hætti og að öll ríki virði alþjóðarétt í samskiptum ríkja og gæti friðar og öryggis í samfélagi þjóðanna.

Ef litið er til framtíðar eru fram undan umfangsmikil verkefni á sviði hafréttar sem geta varðað gífurlega mikilvæga hagsmuni á úthafinu og sjálfbæra nýtingu auðlinda þar. Við erum í sérstöðu þegar kemur að þessum málum. Ábyrg fiskveiðistjórn síðustu áratuga og sá árangur sem hún hefur skilað skapar Íslandi sterka stöðu til að taka virkan þátt í viðræðum um gerð samninga til að verjast stjórnlausum veiðum í Norður-Íshafinu og um líffræðilega fjölbreytni utan lögsögu ríkja. Áhersla ráðuneytisins verður sú að unnið verði að málefnum hafsins á grundvelli hafréttarsamningsins og samninga sem tengjast honum. Einnig verður lögð áhersla á rétt strandríkja til sjálfbærrar nýtingar lifandi auðlinda hafsins og að fiskveiðistjórn sé ýmist staðbundin eða svæðisbundin en ekki hnattræn.

Almennt eru auðlinda- og umhverfismál sífellt meira til umfjöllunar á alþjóðavísu. Síðasta ár var nokkuð sérstakt í því tilliti enda náðist, sem kunnugt er, sögulegur áfangi á aðildarríkjaráðstefnu loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna sem haldin var í París í desember síðastliðinn. Samkomulagið er lagalega bindandi undir loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna og nær til aðgerða ríkja eftir árið 2020. Þar er í fyrsta sinn kveðið á um að öll ríki heims skuli draga markvisst úr losun gróðurhúsalofttegunda, takast á við afleiðingar þeirra og tryggja umtalsvert fjármagn til loftslagsvænni lausna og aðstoða ríki sem verða verst úti vegna þessara breytinga.

Ísland var í hópi þeirra ríkja sem vildu metnaðarfullan samning, svo sem að stefnt skuli að því að halda hlýnun jarðar innan við 1,5°C. Ísland beitti sér einnig fyrir samþættingu kynjajafnréttissjónarmiða, nýtingu endurnýjanlegrar orku, mikilvægi skógræktar og landgræðslu fyrir kolefnisbindingu o.s.frv. Við stóðum fyrir nokkrum kynningarfundum í París.

Það er mikið fagnaðarefni að samkomulag hafi náðst og í framhaldinu skiptir sköpum að efndir fylgi orðum. Nánari útfærsla á Parísarsamkomulaginu fer nú í hönd og eru viðræður hafnar við Evrópusambandið og Noreg um hvernig deila skuli ábyrgðinni. Mig langar að nefna hér líka Græna loftslagssjóðinn sem við höfum veitt fjármagn til og er gríðarlega mikilvægur og við munum líta til þess áfram.

Annar stór áfangi á alþjóðavísu náðist á síðasta ári þegar ný þróunarmarkmið, heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun, voru samþykkt í september síðastliðnum. Er það mikið fagnaðarefni og afrakstur gríðarmikillar vinnu sem að baki lá. Við tókum virkan þátt í þessum samningaviðræðum um markmiðin, framkvæmd þeirra og eftirfylgni. Heimsmarkmiðin eru metnaðarfull og gilda fyrir öll aðildarríkin, bæði innan lands og í alþjóðlegri samvinnu. Þau mynda ramma utan um starf Sameinuðu þjóðanna til ársins 2030 og er meðal annars ætlað að binda enda á fátækt í heiminum, ná utan um umhverfisvanda mannkyns og vinna að jöfnum félagslegum tækifærum. Nú þegar markmiðin hafa tekið gildi hefur ríkisstjórnin samþykkt aðgerðir og sérstaka fjárveitingu til að vinna að þeim.

Virðulegi forseti. Hér framar í framsögu minni vék ég að því að friður, öryggi og þróun í heiminum eru kirfilega samofin. Í því tilliti gegnir þróunarsamvinna afar mikilvægu hlutverki sem fer sífellt vaxandi. Fyrir jól samþykkti Alþingi frumvarp um breytingar á lögum nr. 121/2008, um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands, eins og flestir hér muna eftir. Er nú unnið að þessu með því að hafa allan málaflokkinn á einni hendi og er vonast til að betri yfirsýn náist yfir málaflokkinn og að samhæfing og skilvirkni aukist. Með nýju fyrirkomulagi er enn fremur verið að styrkja tengsl þróunarsamvinnu og annarra utanríkismála.

Fyrstu mánuðir ársins 2016 hafa því einkennst af ýmsum skipulagsbreytingum sem lögin hafa í för með sér. Starfsemin hefur farið vel af stað og er unnið að margvíslegum málum sem tengjast sameiningunni, gerð verkferla, verklagsreglna, nýrrar gæðahandbókar o.s.frv. Allt starfsfólk ÞSSÍ sem boðið var starf þáði það og sérstaklega hefur verið hugað að móttöku þeirra í ráðuneytið.

Vinna við stefnu stjórnvalda á sviði alþjóðlegrar þróunarsamvinnu Íslands fyrir tímabilið 2017–2021 er nú á lokastigi og verður lögð fram á Alþingi ásamt aðgerðaáætlun fyrir tímabilið 2017–2018. Stefna okkar tekur að sjálfsögðu mið af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og yfirmarkmið starfsins er að draga úr fátækt og stuðla að almennri velferð á grundvelli jafnréttis og sjálfbærrar þróunar. Áfram verður unnið að uppbyggingu félagslegra innviða, sjálfbærri nýtingu auðlinda og starfi í þágu friðar, jafnframt því sem mannúðaraðstoð skipar mikilvægan sess. Þá verður jafnrétti kynjanna og umhverfis- og loftslagsmál, bæði sértækt og þverlægt, viðfangsefni í nýju stefnunni. Vil ég minnast líka á að áfram verða samningaviðræður í gangi við Háskóla Sameinuðu þjóðanna um alþjóðastofnun Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi.

Virðulegi forseti. Utanríkisþjónusta Íslands er ein sú minnsta í Evrópu, enda þjóðin fámenn. Á síðustu árum frá hruni hefur utanríkisþjónustan þurft að skera verulega niður í rekstri sínum, eins og aðrir, og við höfum sýnt ýtrustu ráðdeildarsemi í starfseminni. Niðurskurðurinn hefur eðlilega haft þau óhjákvæmilegu áhrif að dregið hefur saman í þjónustunni en ráðuneytið er fyrst og fremst þjónustustofnun. Stöðugt minnkandi fjárveitingar og fækkun starfsmanna kemur þannig niður á þjónustunni þótt eftirspurnin hafi aukist, ekki síst þegar kemur að viðskiptaþjónustu.

Það eru ýmis verkefni í alþjóðasamskiptum sem verður að sinna, óháð stærð þjóða. Vil ég nefna borgaraþjónustuna þar sem álagið hefur aukist mikið en áætlað er að borgaraþjónustan sinni yfir 30 þús. erindum árlega. Þá finna starfsmenn íslenskra sendiskrifstofa mikið fyrir vaxandi áhuga á Íslandi og íslenskum vörum og því að ferðast til landsins.

Því ber að fagna að enduruppbygging utanríkisþjónustunnar er hafin. Í fjárlögum þessa árs, 2016, ákvað Alþingi að styrkja utanríkisþjónustu erlendis um tæplega 5% og ég fagna því mjög.

Virðulegi forseti. Alþjóðasamskipti og sú diplómasía sem við sinnum er ekki alltaf í föstum skorðum. Mig langar að nefna að jafnréttismálin hafa skipað stóran sess í störfum okkar og höfum við staðið ásamt fleirum fyrir svokölluðum rakararáðstefnum þar sem höfum dregið athyglina að mikilvægi þess að karlar sinni jafnréttismálum. Við vorum nýlega með ráðstefnu í höfuðstöðvum Atlantshafsbandalagsins og einnig vorum við með ráðstefnu í Genf í húsnæði Sameinuðu þjóðanna með Flóttamannastofnun SÞ. (Forseti hringir.) Fleiri slíkar ráðstefnur verða haldnar.

Virðulegi forseti. Tími minn er liðinn. Ég hefði getað sagt nokkur orð í viðbót en læt staðar numið í framsögu minni og vona að hér verði góðar umræður í dag.