145. löggjafarþing — 90. fundur,  17. mars 2016.

utanríkis- og alþjóðamál.

611. mál
[12:13]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegur forseti. Fyrir smáþjóð eins og Ísland eru utanríkismálin stórmál sem koma alls staðar að og tengjast margvíslegum málefnum sem í stærri ríkjum eru í raun og veru innanríkismál. Ég fagna því að við séum að ræða þessa skýrslu og vildi svo óska þess að fleiri þingmenn hefðu séð sér fært að fylgjast með umræðunni, en við treystum því að þeir geri það á upptökum.

Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra og hans fólki í utanríkisráðuneytinu fyrir þessa góðu og innihaldsríku skýrslu. Hún er mjög vandlega unnin og innihaldsrík, eiginlega allt of innihaldsrík til að ræða í svona stuttum ræðum. En ég er líka mjög ánægður með að sjá að þingið hefur prentað upp góðan stafla af þessum skýrslum þannig að þingmenn geta tekið eintak með sér í páskafríið.

Í skýrslunni er farið yfir helstu vinnu utanríkisráðuneytisins og helstu stöðu í málum. Mig langar til að tæpa á nokkrum punktum. Almennt verður að segjast að það ríkir nokkuð mikil sátt í grunnatriðum um utanríkisstefnu Íslands þó að auðvitað séu áherslupunktar, eins og fram kom í máli hv. þm. Ögmundar Jónassonar rétt áðan, þar sem menn greinir á, eins og þegar kemur að NATO og umfangi viðskiptasamninga og svo framvegis. En gegnumsneitt er mjög gott samkomulag í íslenskum stjórnmálum um grunnprinsipp í utanríkisstefnu okkar sem byggir á mannréttindum, friði, herleysi Íslands, jafnrétti, uppbyggingu og svo framvegis. Það er mjög jákvætt og í raun og veru dýrmætt og svo langt frá því að vera sjálfsagt hversu vel íslenskum stjórnmálum hefur tekist að vera sammála um þessi grunnprinsipp.

Það er mjög ánægjulegt að lesa það í skýrslunni, sem kemur okkur nefndarmönnum í utanríkismálanefnd þó ekki á óvart, að þessi grunnprinsipp hafa verið rauður þráður í starfi utanríkisráðuneytisins og hæstv. utanríkisráðherra. Ég vil alls ekki taka undir með hv. þingmanni sem talaði hér á undan mér að það sé einhver kvóti á hrós til hæstv. ráðherra, en það er full ástæða til að hrósa framgöngu hans, sérstaklega þegar kemur að jafnréttismálum, en ekki síður þegar kemur að málefnum Úkraínu og þeim vanda sem steðjað hefur að Evrópu. Mörg okkar eru af kynslóðum sem hafa í raun ekki þekkt annað en að Evrópa sé friðarsvæði, en í sögulegu samhengi er það í raun alger nýlunda. Evrópa hefur í gegnum aldirnar og árþúsundin verið einhver mesta púðurtunna á jörðinni. Það er í raunar alveg stórmerkilegt að síðustu 50–60 árin hafi ríkt friður í Evrópu.

Ástandið í Úkraínu, yfirtaka og innlimun Krímskaga, eru stórar fréttir í Evrópu vegna þess að hingað til, frá stríðslokum, hefur ríkt góð sátt í Evrópu um að landamæri ríkja séu virt og fullveldi þeirra. Það eru vissulega viðsjárverðir tímar í Evrópu, ekki síður þegar við sjáum að ástandið í Miðausturlöndum er farið að þrýsta mjög á okkur í Evrópu. Miðausturlönd eru í raun næstu nágrannar okkar, bæði af því að heimurinn er að minnka og vegna þess að Schengen-samstarfið, sem Ísland tekur þátt í, á landamæri að Tyrklandi og þessu svæði. Það er ánægjulegt að sjá hvað íslensk stjórnvöld hafa tekið því alvarlega að þó að Ísland sé úti í ballarhafi, ef svo má segja, koma þessi mál, flóttamannavandinn, okkur við. Mér er reyndar mjög illa við að tala um vandann sem flóttamenn eru í sem flóttamannavanda vegna þess að það eru ekki flóttamennirnir sem eru vandamálið frekar en sjúklingarnir eru vandi heilbrigðiskerfisins. Þvert á móti er vandinn ástandið sem flóttamennirnir eru að flýja. En álagið sem flóttamannastraumurinn til Evrópu veldur ríkjunum næst Miðausturlöndum og áhrif þess á samstöðuna og samvinnuna í Evrópu er mikið áhyggjuefni. Það skiptir miklu máli fyrir okkur Íslendinga að beita okkur á þeim vettvangi. Það er ánægjulegt að sjá hvað við höfum verið að fylgjast vel með og við eigum að beita okkur til góðs í þeim málum.

Það er mjög fróðlegt og skemmtilegt að sitja í utanríkismálanefnd en það er ekki síður reynsla mín að það víkkar sjóndeildarhringinn. Við erum dálítið vön því að horfa á Ísland og næsta nágrenni sem nafla alheimsins, að horfa á Norðurlöndin í utanríkismálalegu tilliti sem því sem næst eina heild og síðan Evrópu, og rétt þekkja löndin á landakorti þar fyrir utan. Auðvitað er staðreyndin sú á 21. öld að heimurinn hefur snarminnkað. Ekki aðeins er búið að finna upp internetið heldur er líka búið fjölga flugvélum um heilan helling. Það er í sjálfu sér bara spurning um einhverja þúsundkalla og viðbótarklukkutíma í flugvélinni sem færir okkur frá Evrópu hvert sem er um hnöttinn. Öryggismál, efnahagsmál eru orðin miklu samþættari á miklu stærra svæði en þau voru bara fyrir örfáum áratugum.

Ég hef miklar áhyggjur af ástandinu í Jemen og því hvernig sífellt fleiri aðilar og þjóðir í Miðausturlöndum virðast vera tilbúnar til að taka þátt í átökum. Stóru þjóðirnar virðast vera farnar að dragast inn í átök sem áður voru svæðisbundin. Fréttir berast af því að flóttamenn frá Jemen eru farnir að sækja um hæli í Sómalíu, sem er staða sem öllum hefði þótt óhugsandi fyrir örfáum mánuðum, þ.e. að einhver sækti um hæli í Sómalíu. En þannig er ástandið. Og það ástand mun auðvitað hafa áhrif og berast til Evrópu, inn á Schengen-svæðið, sem er í raun og veru okkar ytri landamæri. Ég treysti því og veit að utanríkisráðuneytið fylgist mjög grannt með þeirri stöðu. Það skiptir miklu máli.

Hæstv. ráðherra minntist á í ræðu sinni hvað umhverfismálin væru farin að spila stóra rullu í utanríkismálum. Það er auðvitað stór hluti af hinni auknu hnattrænu vídd í utanríkismálum sem ég minntist á rétt áðan. Umhverfismálin og loftslagsáhrifin fylgja engum landamærum. Við þekkjum það hér á norðurhjara hvað viðkvæmustu landsvæði jarðarinnar breytast hratt við þessar aðstæður. Það er ekki bara skylda okkar sem hluta af heiminum, heldur eru það líka okkar einkahagsmunir sem lands á norðurhjara að berjast fyrir því að þjóðir heims sameinist. Niðurstaða Parísarfundarins í lok síðasta árs var mjög ánægjuleg, að samstaða skyldi nást um einhverjar aðgerðir, þó svo að alltaf megi deila um hvort þær séu nægar. Það er mjög ánægjulegt og ég tek undir með hæstv. ráðherra að nú skiptir öllu máli að eftirfylgnin sé einhver og að menn rembist ekki bara við að ná upp í það sem búið var að semja um heldur komist helst langt fram úr því.

Ég hef upplifað það í heimsóknum til annarra ríkja að menn leggja mikla áherslu á grænu málin. Menn leggja mikla áherslu á að færa orkukerfi sín til sjálfbærari nýtingar. Þar höfum við Íslendingar til allrar hamingju ágæta reynslu sem við getum deilt og það eigum við að gera. Íslendingar hafa verið duglegir við það, ekki síst í gegnum skóla Sameinuðu þjóðanna sem hér eru starfræktir. Það er mjög jákvætt starf. Þó að ekki séu margir nemendur í jarðhitaskólanum eru þeir alþjóðlegu nemendur sem þaðan útskrifast mjög líklegir til að verða miklir áhrifamenn í jarðhitamálum og málefnum sjálfbærrar orkunýtingar. Það er full ástæða fyrir okkur Íslendinga til að blása enn í starfsemi skóla Sameinuðu þjóðanna og styrkja þá og vekja á þeim meiri athygli.

Af því að ég sé að tími minn fer fljótlega að renna út vil ég aðeins minnast á þróunarsamvinnuna sem er einnig mjög mikilvægt verkefni. Ég og hæstv. ráðherra vorum á öndverðum meiði þegar hann lagði fram og fékk samþykkta tillögu um að Þróunarsamvinnustofnun yrði lögð niður og sett inn í ráðuneytið. En meiri hluti Alþingis samþykkti þá tillögu. Nú skiptir miklu máli að þær breytingar bitni ekki á þróunarsamvinnunni sjálfri, sem er auðvitað hryggjarstykkið og aðalástæðan fyrir að við stöndum í því starfi, þ.e. þróunarsamvinnan, að við leggjum lóð okkar á vogarskálarnar til að aðstoða þau ríki og það fólk sem á undir högg að sækja og þau svæði sem þurfa að komast áfram í innviðauppbyggingu. Eins skipta þar grunnprinsipp okkar um jafnrétti og mannréttindi miklu máli og þar höfum við Íslendingar sérstaklega mikið fram að færa þrátt fyrir fámenni og tiltölulega litla peninga.

Ég legg áherslu á það þegar kemur að þróunarsamvinnunni að við látum ekki deigan síga. Ég hlakka mikið til að sjá þróunarsamvinnustefnuna og aðgerðaáætlunina. Það verður bara að segjast eins og er, því miður, að Íslendingar hafa staðið sig skammarlega illa þegar kemur að framlögum til þróunarsamvinnumála. Þar getum við gert svo miklu betur. Það kom ágætlega fram í langri og ítarlegri umræðu í sambandi við tillöguna um Þróunarsamvinnustofnun hvað ríkin í kringum okkur, Norður-Evrópuríkin, hafa staðið sig vel og mörg hver verið við eða bankað í viðmiðið um 0,7% af þjóðarframleiðslu til þróunarsamvinnumála, jafnvel þrátt fyrir efnahagserfiðleika. Ég hvet okkur og hæstv. ráðherra til dáða í þeim efnum.

Síðan vil ég aðeins koma inn á borgaraþjónustuna, sem er auðvitað mikilvægt en dálítið ósýnilegt verkefni utanríkisráðuneytisins og utanríkisþjónustunnar. Ísland er lítið land. Við höfum ekki sendiráð eða sendifulltrúa úti um allar koppagrundir eins og stórríkin. Auðvitað eru Íslendingar fáir en það er ótrúlegt hvað þeir ferðast víða og auðvitað lenda sumir þeirra í ákveðnum vanda. Ég veit að vel hefur verið unnið og hvet okkur áfram til dáða í að sinna borgaraþjónustunni vel. Það eru nokkur mál sem koma reglulega upp um Íslendinga sem búa gjarnan afskekkt einhvers staðar langt í öðrum heimsálfum sem lent hafa í vandræðum með týnd vegabréf eða vegabréf sem þeir hafa ekki átt auðvelt með að fá endurnýjuð. Það eru það fá tilvik að ég held að borgaraþjónustunni hljóti að takast að finna leiðir til að leysa þau.

Að lokum verð ég að vera ósammála hæstv. ráðherra um að það sé grundvallaratriði fyrir Ísland að standa utan efnahagsbandalaga. Spurningin um aðild að Evrópubandalaginu og umsókn um aðild að Evrópubandalaginu sem Alþingi (Forseti hringir.) samþykkti er auðvitað enn þá í gildi. Sú umræða verður áfram í íslensku samfélagi þrátt fyrir að hún liggi í láginni. (Forseti hringir.) Ég hef ekki meiri tíma til að taka þá umræðu en við gerum það síðar.