145. löggjafarþing — 90. fundur,  17. mars 2016.

utanríkis- og alþjóðamál.

611. mál
[12:43]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni fyrir hans ræðu sem vissulega kemur inn á mál sem snertir okkur og snertir utanríkisstefnu okkar á ýmsa vegu. Ég er sammála sumu í máli hans, kannski ekki öllu, en tek þó eindregið undir það að þegar horft er til hryðjuverkaógnar verða menn að gæta þess, í viðbrögðum sínum, að ganga ekki á þau grundvallargildi mannréttinda og persónufrelsis sem þjóðskipulag okkar byggir á og á að byggja á.

Ég ætlaði að nota þetta tækifæri af því að ég er ekki viss um að tækifæri gefist til þess síðar í umræðunni að inna hv. þingmann eftir því hver afstaða hans og flokks hans er til nokkurra grundvallarþátta í utanríkisstefnu okkar. Ég ætla að nefna þrennt: Aðildina að Evrópska efnahagssvæðinu og það nána samstarf sem við eigum með Evrópuþjóðum á þeim vettvangi, í öðru lagi aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu, sem er stöðugt meira á dagskrá enda er hlutverk bandalagsins að aukast mjög vegna ýmissa þátta sem raktir voru í skýrslu hæstv. utanríkisráðherra og í þriðja lagi vildi ég nefna varnarsamstarf okkar við Bandaríkin.