145. löggjafarþing — 90. fundur,  17. mars 2016.

utanríkis- og alþjóðamál.

611. mál
[12:49]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef ekki liggur fyrir tillaga eða stefna um að breyta einhverju þá er ekki skynsamlegt að gera ráð fyrir að áform séu uppi um að breyta því. Það getur breyst en það mundi þá gerast í kjölfar umræðu innan flokksins um að breyta einhverju, eins og hvað varðar aðildina að NATO. Satt best að segja hefur sú umræða ekki verið hávær í mínum flokki. Ég hef ekki upplifað hana háværa neins staðar nema fyrst og fremst í röðum Vinstri grænna. Allt í góðu með það. Það er mjög sjálfsagt að gagnrýna NATO og mjög margt gagnrýnisvert við þau samtök eðli þeirra samkvæmt. Þetta eru jú varnarmál, þau eru aldrei falleg.

En ég náði ekki að svara hv. þingmanni um samstarfið við Bandaríkin. Samstarfið við Bandaríkin er að mínu mati, og flestra þeirra Pírata sem ég hef talað við, sem reyndar verður alltaf minni og minni hluti af flokknum sjálfum — við stöndum frammi fyrir því að NASA og stofnanir innan Bandaríkjanna hegða sér með þeim hætti gagnvart vinaþjóðum að við teljum það ekki viðunandi, hvernig þær njósna og því um líkt. Það eru aðallega þær áherslur sem okkar flokkur hefur haft áhyggjur af, þ.e. hvernig Bandaríkjamenn koma fram við sínar vinaþjóðir. Það er eitthvað sem við þurfum að vera alveg tæpitungulaus með. Varnarmálin eru í samhengi við NATO, í stóra samhenginu, ekki sérstaklega Bandaríkin, nema af þeim ástæðum að þau eru svo hersterk.

Ég ætla að reyna að svara hv. þingmanni um það hvort þingmenn muni mæla með eða gegn inngöngu. Að mínu mati get ég ekki myndað mér skoðun um inngöngu í ESB eða ekki fyrr en viðræðunum hefur verið lokið. Við gætum rætt það hérna en við þyrftum meiri tíma til þess. Það er mín persónulega afstaða. Svo eru flokksmenn með misjafnar skoðanir á þessu eins og þjóðin almennt, enda á þetta heima í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þingmenn eiga ekkert að ákveða þetta.

Hv. þingmaður nefnir að það hafi næstum því verið meiri hluti fyrir því að endurskoða NATO hjá Samfylkingunni nýlega. Mér finnst það vera einkenni þess að við búum í breytilegum heimi (Forseti hringir.) þar sem alltaf þarf að endurskoða ákvarðanir. En þá þarf umræðan að eiga sér stað fyrst. Menn eiga ekki heldur að vera hræddir við þá umræðu.