145. löggjafarþing — 90. fundur,  17. mars 2016.

utanríkis- og alþjóðamál.

611. mál
[14:08]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hún var væntanlega einlæg og töluð beint frá hjartanu og sérstaklega athyglisverðar setningar um að hv. þingmaður teldi að Bandaríkjamenn hefðu gert mikil mistök eða mistök með því að loka herstöðinni hér og hverfa á braut 2006.

Þetta er áhugaverður vinkill á hlutina og ég leyfi mér að spyrja hv. þingmann: Nálgast hann málið í þessu tilviki út frá umhyggju sinni fyrir Bandaríkjunum og að þau hafi gert sem slík mistök fyrir sína hönd með þessu og í hverju væru þau mistök þá fólgin? Byggir hv. þingmaður þar af leiðandi á djúpri þekkingu og greiningu á bandarískum heimsvalda- og valdahagsmunum og telur að þarna hafi Bandaríkjamenn sem slíkir sín vegna sjálfir tekið ranga ákvörðun? Eða eru þetta mistök í huga þingmannsins í þeim skilningi að þetta hafi komið með einhverjum hætti niður á okkur? Og þá hvernig?

Hvað ræðumann varðar þá hefur mér liðið alveg prýðilega í landinu frá 2006 og þær ógnir sem að okkur hafa steðjað hafa ekki komið utan frá, eins og kunnugt er. Það var okkar heimatilbúni vandi sem var við það að setja okkur á hausinn en ekki utanaðkomandi ógn.

Í öðru lagi fagnar hv. þingmaður að þess sjáist merki að Bandaríkjamenn hafi aukinn áhuga á viðveru eða umsvifum hér.

Er hv. þingmaður sannfærður um að það sé til bóta að fara að gíra sig upp á nýjan leik í það að menn þurfi að fara að efla hér stríðsundirbúning og hernaðaruppbyggingu?

Hefur hv. þingmaður engar áhyggjur af því að þetta gæti verið frekar ógæfuleg gata sem við værum að lenda niður eftir ef stórveldin, kjarnorkuveldin, fara að hnykla vöðvana í æ ríkari mæli hvert framan í annað?

Hvað varðar okkur á norðurslóðum spyr ég hvort ekki sé mögulegt að í því væri fólgin hætta á stigmögnun, sem væri ekki það sem við óskuðum eftir, að hernaðarumsvif og (Forseti hringir.) vígbúnaðarumsvif færu að stigmagnast á norðurslóðum. Viljum við ekki helst sjá þennan heimshluta friðsælan?