145. löggjafarþing — 90. fundur,  17. mars 2016.

utanríkis- og alþjóðamál.

611. mál
[14:10]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Varðandi fyrra atriði sem ég kallaði mistök Bandaríkjamanna þá held ég að það hafi verið mistök í margvíslegum skilningi.

Ég held að það hafi falist vanmat af þeirra hálfu út frá hagsmunum Bandaríkjanna, út frá hagsmunum Íslands og út frá heildarhagsmunum Atlantshafsbandalagsins að draga úr varnarviðbúnaði á þessu svæði.

Það er að sönnu rétt að fyrstu árin eftir brottför varnarliðsins bar ekki mikið á titringi af því tagi sem við höfum séð hér frá 2013. En aðstæður hafa breyst og þá held ég að það hefði verið til bóta að viðbúnaður hér væri meiri þó hann yrði kannski í öðru formi en við vorum með fyrir 2006.

Þá kem ég að hinu síðara. Ég held að það geti ekki með nokkru móti talist aukahætta eða aukaógn þó að hér verði til dæmis, eins og hefur verið í umræðunni, fjölgað vélum sem fylgjast með umferð kafbáta í nágrenni landsins. Eða að fjölgað sé í flugsveitum sem hingað koma, eins og sakir standa nokkrum sinnum á ári, sem fylgjast með ferðum rússneskra flugfara í lögsögunni. Á því hefur orðið aukning, þ.e. ekki aðeins hér heldur líka í mörgum af næstu nágrannalöndum okkar.

Rússar hafa (Forseti hringir.) verið að hnykla vöðvana og ég sé ekki að við værum að bæta stöðu okkar með því að standa gegn því að betur sé fylgst með í þeim efnum en gert hefur verið.