145. löggjafarþing — 90. fundur,  17. mars 2016.

utanríkis- og alþjóðamál.

611. mál
[14:12]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Við erum sennilega ekki alveg sammála um þetta. Ég hef ekki sett mig í þær stellingar að reyna að meta hvað væri skynsamlegt út frá hernaðar- og stórveldahagsmunum Bandaríkjanna, ég horfi meira á þetta hvað að okkur snýr. Ég sé ekkert í það að sækja fyrir Ísland eins og það leggur sig að fara að bjóða upp á það á nýjan leik að við verðum eitthvert örlítið peð og leiksoppur í stigmagnaðri spennu milli stórveldanna.

Já, það er út af fyrir sig rétt að um tíma juku Rússar nokkuð umsvif sín í þessum efnum. Þeir áttu fyrir bensíni á skipin og flugvélarnar á nýjan leik eftir að hafa verið ansi laskaðir í þeim efnum og sást lítið til þeirra. En ég er ekki frá því að nú sé aftur að draga úr þeim máttinn ansi harkalega. Vissulega getur sært dýr eða laskað stórveldi verið varhugaverður viðskiptaaðili, en efnahagslegir burðir Rússa til að halda úti miklum umsvifum hafa náttúrlega veikst verulega á nýjan leik. Ég geri ekki endilega mikið með það þegar menn blása það út hversu mikil ógn þeir séu í þessum efnum. Það er bara gamli góði leikurinn að Rússar segja: NATO er að færa sig nær austurlandamærum okkar, þeir eru að auka umsvif sín í Eystrasaltsríkjunum, við verðum að svara, við verðum að fara að senda fleiri vélar í loftið. Þá kemur NATO og segir: Heyrðu, Rússarnir eru komnir á loft, við verðum að elta þá, fylgjast með þeim. Þannig gerist þetta. Þannig getur þetta stigmagnast.

Ég man að ég spurði Thorvald Stoltenberg að þessu í utanríkismálaumræðum á Norðurlandaráðsþingi fyrir tveimur árum síðan. Hann neitaði því ekki, án þess að ég ætli að leggja honum orð í munn eða gera hans skoðanir að mínum, að menn þyrftu að fara mjög varlega þrátt fyrir að Rússar þurfi auðvitað að vita af því að þeir muni ekkert komast upp með hvað sem er hérna.

Ég sé ekkert nema tjón af því hvernig þessi samskipti hafa verið að þróast í (Forseti hringir.) norrænu og evrópsku samstarfi og stigvaxandi spenna, sérstaklega ef hún færist (Forseti hringir.) yfir í hernaðarbrölt — þá (Forseti hringir.) erum við komin út á háskalega braut.