145. löggjafarþing — 90. fundur,  17. mars 2016.

utanríkis- og alþjóðamál.

611. mál
[14:17]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans. Hann er einn af þeim þingmönnum að mínu mati sem er einna fróðastur um utanríkismál af þeim þingmönnum sem hér eru og fróðlegt að heyra skoðanir hans á málum.

Ég hefði viljað spyrja hann aðeins út í þau teikn sem eru á lofti yfir Schengen-svæðinu og mat hans á ummælum ráðamanna í Evrópusambandinu sjálfu um að þetta riði allt til falls og í raun og veru sé vandinn orðinn gríðarlegur. Nú erum við aðilar að Schengen-svæðinu og um þetta svæði og í gegnum þetta kerfi koma ferðamenn til landsins sem verja hér 300 milljörðum á ári, 1 milljarði á dag. Truflun á starfsemi þessa vegabréfakerfis í einn dag gæti þýtt 1 milljarð í tjón. Samt hefur ekki verið gerð viðbragðsáætlun eða nein áætlun sem mér er kunnugt um, og ég hef kallað eftir því, um það hvernig og til hvaða aðgerða ætti að grípa ef babb kemur í bátinn í Schengen-kerfinu, sem sífellt er verið að tala um að sé að hruni komið.

Er þingmaðurinn ekki sammála mér í því að ráðlegt væri og í raun og veru vítavert að undirbúa ekki nú þegar sérstaka viðbragðsáætlun sem færi yfir það hvernig við mundum koma í veg fyrir langvarandi truflun á vegabréfaeftirliti ef eitthvað gerðist sem við hefðum ekki stjórn á? Ég held að þetta sé orðið það mikilvægt mál og varði það mikið hagsmuni okkar að þetta gangi smurt að við verðum að velta fyrir okkur viðbragðsáætlunum og hugsanlega einhvers konar langtímalausn sem gæti komið til. Hvað finnst þingmanninum um þessar vangaveltur?