145. löggjafarþing — 90. fundur,  17. mars 2016.

Norræna ráðherranefndin 2015.

608. mál
[14:57]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Í fjarveru samstarfsráðherra greini ég frá skýrslu um þátttöku okkar Íslendinga í norrænu samstarfi á vettvangi Norrænu ráðherranefndarinnar árið 2015.

Um þessa skýrslu gildir að sjálfsögðu það sama og um þá skýrslu sem var til umræðu fyrr í dag eða rétt áðan. Hún liggur hér frammi og veit ég að þingmenn munu nálgast og kynna sér báðar þessar skýrslur enda er hér meira og minna um yfirlitsrit að ræða. Farið er yfir það ár sem liðið er um leið og við reynum að einhverju leyti að horfa til framtíðar.

Flestir ráðherrar ríkisstjórnarinnar taka virkan þátt í norræna ríkisstjórnarsamstarfinu með setu í norrænum fagráðherranefndum. Markmið skýrslunnar er einkum að gefa Alþingi innsýn í það yfirgripsmikla samstarf Norðurlanda sem fram fer í samræmi við ákvæði Helsinki-sáttmálans og að veita upplýsingar um margvíslegt verkefnasamstarf fagráðuneytanna á þessum vettvangi. Það er samstarf sem hefur mikla þýðingu og beinan ávinning fyrir Ísland.

Norrænt samstarf var að mörgu leyti hefðbundið á árinu 2015. Danir tóku við formennsku af okkur Íslendingum í upphafi árs og var þar unnið eftir formennskuáætlun sem þeir lögðu fram á Norðurlandaráðsþingi árið 2014. Auk þess störfuðu ráðherranefndirnar eftir nokkurra ára áætlun sem samkomulag er um.

Enda þótt margt sé í föstum skorðum í norrænu samstarfi er í því innbyggður sveigjanleiki sem gerir því kleift að bregðast hratt og vel við margvíslegum breytingum í norrænum samfélögum, ekki hvað síst þeim sem eru af pólitískum toga.

Þá hafa sviptingar í alþjóðastjórnmálum haft áhrif á stefnuna í samstarfinu og gætti þess í meira mæli á síðasta ári en sést hefur mörg undanfarin ár. Stríður straumur flóttamanna til Norðurlanda hafði að vonum áhrif á norræna samstarfið enda er um að ræða viðfangsefni sem löndin öll þurfa að takast á við. Bein afleiðing var að tekið var upp landamæraeftirlit milli Danmerkur og Svíþjóðar og Danmerkur og Þýskalands sem beinist jafnt að norrænum borgurum sem öðrum, nokkuð sem ekki hefur gerst í meira en 60 ár og sér enn ekki fyrir endann á.

Fyrir norrænt samstarf er þetta vissulega áhyggjuefni enda hefur verið unnið að því ötullega á vettvangi Norrænu ráðherranefndarinnar að ryðja úr vegi landamærahindrunum svo norrænir samningar, t.d. um sameiginlegan vinnumarkað nái fram að ganga með þeim hætti sem lagt var upp með við gerð þeirra.

Þessi nýja staða á norrænum landamærum verður meginviðfangsefni aukaþings Norðurlandaráðs sem haldið verður í Ósló í apríl næstkomandi.

Málefni flóttafólks og hælisleitenda, móttaka þeirra og aðlögun að norrænum samfélögum hafði einnig mikil áhrif á umræðuna á norrænum vettvangi og hefur þegar verið ákveðið að setja þau í forgang með ýmsum hætti. Samstarfsráðherrarnir ákváðu á fundi sínum í byrjun febrúar síðastliðinn að hefja nokkurra ára verkefni sem leiðir til þess að bæta aðlögun flóttafólks á Norðurlöndum auk þess sem Norðmenn hafa þegar boðað að þeir muni setja málið í forgang á formennskuárinu 2017.

Þá voru málefni flóttafólks og hælisleitenda sérstaklega tekin fyrir á fundi norrænu dómsmálaráðherranna fyrr í þessum mánuði en stefna landanna í málaflokknum er á margan hátt ólík og æskilegt að kannað verði hvort unnt sé að leita sameiginlegra lausna og skilgreina hvar Norðurlöndunum tekst best upp í þessum málum. Norrænu samstarfsráðherrarnir munu halda sérstakan fund um málefni flóttafólks í apríl næstkomandi.

Mestu vonbrigðin í norrænu samstarfi á árinu voru án efa lokun skrifstofu Norrænu ráðherranefndarinnar í Pétursborg og Kalíningrad með því að rússnesk stjórnvöld settu skrifstofurnar á lista yfir erlenda erindreka og gerðu þar með frjálsum félagasamtökum í Rússlandi ómögulegt að eiga samskipti við þessar skrifstofur. Komust samstarfsráðherrarnir að þeirri niðurstöðu að starfseminni væri í rauninni sjálfhætt.

Þeim möguleika er þó haldið opnum að færa starfsemina í fyrra horf ef og þegar pólitískt andrúmsloft breytist í Rússlandi enda hafa hvorki rússnesk stjórnvöld né Norræna ráðherranefndin sagt sig frá samkomulagi sem gert var árið 1997 um norrænt samstarf í landinu.

Virðulegi forseti. Ég tel ekki ástæða til að fjölyrða frekar um skýrsluna. Hún talar sínu máli og hvet ég þingmenn eindregið til að kynna sér efni hennar.