145. löggjafarþing — 91. fundur,  18. mars 2016.

störf þingsins.

[10:31]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Við þingmenn erum í þeirri sérkennilegu stöðu, og má segja þjóðin öll, að við erum með ákveðin gögn sem varða einkavæðingu á bönkum sem nema hundruðum milljarða króna í leyniherbergi þar sem hver þingmaður má fara einn inn og skoða gögnin sem öll eru á erlendu tungumáli.

Nú er um að ræða gríðarlega stóra gjörninga sem nema hundruðum milljarða. Mér hefur fundist menn ræða þetta kannski, ég segi ekki af léttúð, en afgreiða þetta í tengslum við ákveðnar persónur sem hafa verið áberandi í þessari umræðu. Málið er auðvitað miklu stærra en það. Þetta snýst um hvort það geti verið að upplýsingar sem þessar séu ekki opnar fyrir almenning.

Nú er enginn vafi á því að það sem snýr að bankaleynd, ákveðnum einstaklingum og svo framvegis á eðli málsins samkvæmt að vera undir bankaleynd. En við þurfum að fara vel yfir það, og við í hv. fjárlaganefnd höfum gert það, hvort við getum unnið með þessum hætti. Í þessu tilfelli vorum við að flytja eignir, og það hefur verið kirfilega staðfest af Fjármálaeftirlitinu, sem voru ríkiseignir sem voru færðar yfir í þrotabú. Lögum var breytt þannig að þrotabú gætu eignast banka sem var ekki heimilt samkvæmt lögum.

Við getum ekki afgreitt þetta að mínu áliti eins og átti að afgreiða Icesave, en á þeim tíma var sagt við okkur hv. þingmenn að það ætti að vera leynd yfir þeim samningum. Það er svolítið kaldhæðnislegt að við sáum það fyrst á internetinu áður en við fengum þá (Forseti hringir.) stóru samninga sem vörðuðu hagsmuni íslensku þjóðarinnar.

Í þessu tilfelli er auðvitað um að ræða mikla hagsmuni fyrir þjóðina (Forseti hringir.) og það er ekki hægt að bjóða almenningi og þjóðinni upp á að þetta sé í leyniherbergi sem bara þingmenn megi fara inn í og skoða þessi gögn.


Efnisorð er vísa í ræðuna