145. löggjafarþing — 91. fundur,  18. mars 2016.

störf þingsins.

[10:34]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Herra forseti. Mig langar að gera að umtalsefni nýtingu fjármuna sem við leggjum til tækni, rannsókna og þróunarmála. Við höfum á undanförnum árum stóraukið framlög til Tækniþróunarsjóðs, 2014 var tæpur milljarður lagður til Tækniþróunarsjóðs, 2015 var það komið upp í tæpa 1,4 milljarða og árið 2016 eru það 2,3 milljarðar. Ég fagna því að við veitum aukna fjármuni í þetta mikilvæga starf, en ég velti líka fyrir mér hvaða áherslur við erum að leggja með þeim fjármunum.

Ég tel að við þurfum að horfa víðar og hugsa okkar gang í þessum efnum og horfa líka til þeirra sjóða sem geta nýst frumkvöðlum, geta nýst fólkinu sem er að vinna á gólfinu. Við urðum mjög vör við það í síðustu kjördæmaviku þegar við heimsóttum m.a. vélsmiðju vestur á Ísafirði, 3X stál, þróunarfyrirtæki sem hefur þróað og framleiðir núna mikilvægan tækjabúnað fyrir sjávarútveg. Við eigum glæsilegt fyrirtæki sem heitir Marel og fleiri í þessum geira en þessum fyrirtækjum gengur mjög illa að nálgast þessa fjármuni til að þróa áfram vörur sem geta skapað mikil verðmæti.

Í fjárlaganefnd í vikunni komu líka fram mjög áhugaverðar tölur um það hvernig við erum að nota þessa fjármuni og hvar við erum að nota þá. Þar kemur í ljós með mjög grunnri greiningu að 92% af þeim fjármunum sem við leggjum til Tækniþróunarsjóðs eru notuð á höfuðborgarsvæðinu. Meira segja í þeim sjóði sem við horfum helst til til þess að þróa tækjabúnað og rannsóknir í sjávarútvegi til að auka virði sjávarfangs, AVS-sjóðnum svokallaða, er um 78% af fjármunum úthlutað til starfsemi hér á höfuðborgarsvæðinu.

Herra forseti. Við þurfum að gaumgæfa mjög vel nýtingu þessara fjármuna og hvaða áherslur við erum að leggja með þeim.


Efnisorð er vísa í ræðuna