145. löggjafarþing — 91. fundur,  18. mars 2016.

störf þingsins.

[10:36]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Ég tel tilefni til þess að vekja athygli á nefndaráliti sem var rætt hér að kvöldi til í þessari viku, þ.e. nefndarálit með breytingartillögu um tillögu til þingsályktunar um stefnu um nýfjárfestingar.

Ég held að það hefði einhvern tíma vakið athygli í þessum viðkvæma málaflokki að undir þetta nefndarálit skrifa fulltrúar allra þingflokka í atvinnuveganefnd nema Bjartrar framtíðar. Við náðum sem sagt að skapa mikla samstöðu. Píratar voru ekki með okkur í þeirri umræðu eða í þeirri vinnu og eru þess vegna ekki þarna á blaði.

En þarna kemur fram að við komum okkur saman um stóru línurnar í því hvert við eigum að horfa til atvinnusköpunar í landinu á næstu árum og áratugum. Við greinum á milli stóriðju og orkutengds iðnaðar. Við komum okkur saman um hversu höllum fæti landsbyggðin stendur almennt í samanburði við afmörkuð svæði, sérstaklega á suðvesturhorninu, og leggjum mikla áherslu á að horfa verði til þess ef við ætlum að snúa við þeirri byggðaþróun sem við höfum orðið vitni að á síðustu áratugum þar sem atvinnugreinar eins og sjávarútvegur og landbúnaður munu ekki gegna því byggðafestuhlutverki sem þær hafa gegnt á undanförnum áratugum. Það þarf að koma eitthvað nýtt til.

Við tökum alveg sérstaklega fyrir markmið Íslands varðandi losun gróðurhúsalofttegunda og hversu mikilvægt það er að við höfum það til hliðsjónar í allri okkar ákvarðanatöku í framtíðinni. Við bendum einnig á það sem allt of oft á sér stað í þinginu, þ.e. að atvinnugreinum er stillt upp hverri á móti annarri í stað þess að hugsa greinarnar (Forseti hringir.) sjálfstætt og láta þær vaxa og dafna hverja á sínu sviði. Við nefnum til dæmis kolefnislosun, (Forseti hringir.) að það verður meiri kolefnislosun í flutningi (Forseti hringir.) ferðamanna til og frá landinu en af stóriðjunni.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna