145. löggjafarþing — 91. fundur,  18. mars 2016.

störf þingsins.

[10:38]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það eru tvær þjóðir í þessu landi, það er valdaelítan og hinn sauðsvarti almúgi í landinu. Það er almenningur alltaf að sjá betur og betur. Þegar það þykir eðlilegt siðferði hjá forsætisráðherra að hafa fjármuni fjölskyldunnar í skattaskjóli erlendis og hæstv. forsætisráðherra ætlar ekkert að gera þjóðinni grein fyrir því af hverju hann kýs að gera slíkt og hans fjölskylda, hvernig í ósköpunum á að byggja upp traust milli þjóðarinnar og æðstu embættismanna landsins og stjórnmálamanna? Ef æðstu embættismenn telja að vettvangur þeirra til að ávaxta sitt fé og koma því fyrir sé í skattaskjólum erlendis, en almenningur í landinu á að vera með fjármuni sína hér og reyna að standa undir rekstri þessa samfélags, við aðstæður sem forsætisráðherra treystir sér ekki sjálfur að búa við, í fjármálakerfi og hagkerfi sem verið er að byggja upp og sníða að fáum en ekki öllum, hvernig á að byggja upp traust? Það er auðvitað ekki mikið traust sem þarna er á ferðinni gagnvart almenningi í landinu og öfugt ef svona á að vera.

Við gerum þá kröfu hér á Alþingi að forsætisráðherra stígi fram og geri grein fyrir sínum málum. Ótal spurningar hafa vaknað og eiga eftir að vakna um þessi mál. Við eigum að gera kröfu til forsætisráðherra að hann sýni þinginu þá lágmarksvirðingu og þjóðinni allri að gera grein fyrir því af hverju í ósköpunum er verið að skipta landinu upp í tvær þjóðir, valdaelítu og sauðsvartan almúgann sem á að búa við allt önnur kjör en valdaelítan í þessu landi. Það er mjög alvarlegt mál. Við vinstri menn viljum byggja á jöfnuði og að almenningur (Forseti hringir.) njóti ávaxtanna þegar við erum að komast út úr efnahagskreppunni, en þessi vesæla ríkisstjórn (Forseti hringir.) stefnir í allt aðra átt. Við þurfum að koma henni í burtu (Forseti hringir.) sem fyrst og hún á að segja af sér.


Tengd mál