145. löggjafarþing — 91. fundur,  18. mars 2016.

störf þingsins.

[10:57]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Það eru tvær fréttir sem ég sá í gær sem gerðu mig reiða. Það er meðal annars frétt um illa meðferð á dýri þar sem dýr er beinlínis drepið. Þetta er ekkert nýtt. Við heyrum slíkar fréttir af og til. Mér finnst það vera mikið áhyggjuefni og sérkennilegt hve mikið umburðarlyndi virðist vera í gangi í þessum málum. Við erum með lög sem eiga að taka á þessu. Það skiptir máli að eftirlitið og þeir sem eiga að sjá til þess að þeim lögum sé framfylgt standi sig. Við erum að senda skilaboð út í þjóðfélagið um að það sé í raun í lagi að misþyrma dýrum. Ég trúi því ekki að það sé þannig sem við viljum hafa þetta þjóðfélag. Mér finnst þetta mjög dapurleg frétt.

Annað sem ég sá líka í gær var enn ein fréttin um slæman aðbúnað verkafólks í fátækum löndum, fólks sem framleiðir neysluvarninginn fyrir okkur. Ég er orðin svo þreytt á þessum fréttum. Árið 2016 fáum við þessar fréttir og við vitum að víða eru aðstæður alveg ömurlegar. Það er barnaþrælkun, það eru slys í verksmiðjum, þær hrynja jafnvel. Það er bruni í verksmiðjum, það er verið að nota eiturefni sem skaða þá sem vinna vörurnar og fara út í umhverfið. Við eigum viðskipti við fyrirtæki sem framleiða með þessum hætti og horfum í gegnum fingur okkar með hvernig framleiðslunni er háttað.

Ég segi: Nú er árið 2016. Er ekki kominn tími til að neytendur segi: Ég kaupi ekki vöru nema að ég viti að hún sé framleidd á ábyrgan og sjálfbæran hátt? Ekki fara út í búð og kaupa vöru ef við vitum ekki hvernig framleiðslunni er háttað. Það er það eina sem fyrirtækin skilja. Ég veit að mörg fyrirtæki eru að reyna að gera sitt besta en það er ekki nóg árið 2016. Þetta gerist þegar framleiðsla færist frá Vesturlöndum til Asíu þar sem margir missa í raun stjórn á framleiðslunni, eru með undirverktaka sem er svo með undirverktaka og þar fram eftir götunum. En þetta er ekki ásættanlegt. Og ég held að það sé besta sparnaðarráðið fyrir okkur neytendur að hætta að kaupa vörur nema við vitum hvernig þær eru framleiddar.


Efnisorð er vísa í ræðuna