145. löggjafarþing — 91. fundur,  18. mars 2016.

dómstólar.

615. mál
[11:51]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það voru reyndar fjöldamörg sjónarmið sem við veltum upp þegar niðurstaða Hæstaréttar kom og við þurftum að líta til þess að gera breytingar. Það er alveg óumflýjanlegt, dómurinn kallar á lagabreytingar.

Eitt af því sem var rætt var það sem hv. þingmaður nefndi, hvort setja ætti á fót sérstakan dómstól. Ég vil segja það að við höfum kannski ekki alveg botnað þessa umræðu um endurupptökunefndina endanlega, en við teljum hins vegar alveg óumflýjanlegt að gera strax tilteknar breytingar á löggjöfinni þannig að þeirri óvissu sem nú er uppi verði eytt. Ef farið yrði í þá átt sem hv. þingmaður nefndi þá mundi það krefjast að okkar áliti mikillar yfirlegu og það þyrfti að kanna mjög mörg sjónarmið. Það hefði ekki verið nokkur leið að koma með frumvarp af því tagi á þeim stutta tíma sem eftir er á þessum þingvetri. Það á svo sem líka við um allar aðrar þær leiðir sem hefðu hugsanlega komið til álita. Til dæmis hafa verið sjónarmið uppi um það hvort fella eigi þessi lög bara niður, en þá þarf að líta til þeirra mála sem þarna eru, þannig að það eru ýmis sjónarmið uppi í þessu.

Það má segja að núna var vilji okkar að bregðast við dómnum með einföldum hætti, en það má engan veginn líta á það þannig að við séum þar með búin að ljúka þeirri umræðu sem dómurinn hefur í för með sér um þau framtíðarsjónarmið sem þurfa að liggja til grundvallar vegna endurupptöku mála.