145. löggjafarþing — 91. fundur,  18. mars 2016.

dómstólar.

615. mál
[11:53]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi þakka hæstv. ráðherra fyrir framlagningu þessara mála og hrósa henni fyrir að hafa komið þeim fram.

Það eru mikil tímamót í íslenskri réttarfarssögu með framlagningu þessara mála og það er löngu orðið tímabært að gera grundvallarbreytingar á skipan dómskerfisins í ljósi nýrra krafna og fjölbreyttra ástæðna sem kalla á úrbætur.

Ég sé að tími minn er einungis 15 mínútur sem mun varla duga til að gera þessu máli nokkur vitræn skil, en ég mun gera það sem ég best get í því og kannski taka aftur til máls.

Í fyrsta lagi verðum við að horfast í augu við að fjárskortur dómskerfisins er orðinn með þeim hætti að við erum í stórhættu hvað varðar virðingu fyrir almennum réttaröryggissjónarmiðum og það er mjög mikilvægt að gera úrbætur. Mér finnst mjög virðingarvert að hæstv. ráðherra hafi ekki ýtt því máli á undan sér, eins og auðvelt er að gera, heldur tekist á við að reyna að koma því í höfn.

Í frumvarpinu eru raktar ágætlega aðrar ástæður fyrir því að fyrir löngu er orðið tímabært að gera breytingar. Vandamálið um meginregluna um milliliðalausa sönnunarfærslu fyrir Hæstarétti hefur náttúrlega lengi verið uppi og skapað alls konar álitamál og áhyggjur og sú staðreynd að sérfróðir meðdómendur hafa ekki tekið þátt í úrlausn mála í áfrýjunarmeðferð.

Mér finnst menn hins vegar fara dálítið eins og kettir í kringum heitan graut í frumvarpinu og greinargerðinni um hættuna sem stafar af núverandi kerfi fyrir réttaröryggi í landinu. Það er talað um að óhóflegt vinnuálag skapi hættu og réttarskapandi áhrif dóma réttarins verði minni en æskilegt er og þar af leiðandi aukist vinnuálag og því um líkt.

En staðreyndin er einfaldlega sú að með þeirri stöðu sem er núna, þar sem að við höfum marga dómara og höfum farið þá leið t.d. þegar vinnuálag eykst að fjölga dómurum í einni kippu, þá höfum við mjög nýlegt dæmi um það að réttarskapandi áhrif hæstaréttardóma hafa hrunið í höndunum á okkur. Besta dæmið eru dómar Hæstaréttar um gengislánamálin.

16. júní 2010 kveður Hæstiréttur upp einróma dóm um ógildi gengistryggðra lána, að þau séu ógild. Í kjölfarið voru ítrekaðir fundir, og kannski rétt að það komi fram í þingsölum, í ráðherranefnd um efnahagsmál þar sem komu forstöðumenn Fjármálaeftirlits og Seðlabanka og töldu alvarlegt áhlaup á fjármálakerfið í vændum og gríðarlega hættu yfirvofandi. Þeir hvöttu eindregið til þess að gripið yrði til lagasetningar án tafar á þessa niðurstöðu og skipað fyrir með löggjöf um tiltekna úrlausn þessara mála, þannig að öllum gengistryggðum lánum yrði breytt í innlend lán á verðtryggðum seðlabankavöxtum.

Um þetta voru haldnir fjöldamargir ríkisstjórnarfundir sumarið 2010, í lok júní og byrjun júlí, og við vorum nokkuð mörg í ríkisstjórninni sem vorum algjörlega einbeitt í andstöðu við að ríkisstjórnin og Alþingi kæmu að því að leggja línur um framtíðargildi samninga áður en Hæstiréttur hefði tjáð sig til fulls um það.

Hæstiréttur brást síðan vel við öllum ábendingum um að það skipti máli að greiða úr þessari réttaróvissu eins og kostur væri og setti í forgang mál þar sem reyndi á uppgjörsreglur. Það auðveldaði okkur að ýta til hliðar þeim áhyggjum sem við vorum hins vegar stillt upp gagnvart, að nýendurreist fjármálakerfið væri í hrunhættu og við gætum staðið frammi fyrir öðru fjármálahruni.

Hæstiréttur felldi dóm í seinna málinu 16. september 2010 og kvað þar alveg skýrt á um, í einróma fimm manna dómi, fyrirkomulag uppgjörs þessara lána og með hvaða hætti haga skyldi uppgjöri þeirra. Á þeim grundvelli var lagt fram lagafrumvarp til að tryggja öllum með gengistryggð lán nákvæmlega sömu úrlausn, vegna þess að sum gengistryggð lán féllu augljóslega ekki undir skilmála þeirra lána sem talin höfðu verið ógild með hæstaréttardómnum frá því í júní og algjörlega ófært að sumir sætu uppi með gengistryggð lán og aðrir ekki.

Þau lög voru lögfest á Alþingi í desember 2010 og hafa síðan fengið í munni þjóðarinnar nafnið Árna Páls-lög og réðu þessu máli til lykta í fullkomnu samræmi við dóm Hæstaréttar frá 16. september 2010.

Síðan gerist það að vegna álags í Hæstarétti og aukins álags á réttinn vegna málafjölda er fjölgað í einni kippu í Hæstarétti, annaðhvort síðla árs 2011 eða í byrjun árs 2012, og það koma inn fjórir nýir dómarar.

Síðan kemur dómsmál fyrir Hæstarétt sem reynir á um tiltekinn hluta uppgjörsreglna þessara laga. Því er ráðið til lykta með dómi 15. febrúar 2012. Sá dómur kemst að þeirri niðurstöðu að þrátt fyrir einróma fordæmið frá 16. september 2010 sé það samt þannig að í þeim tilvikum þar sem fólk hefur fullnaðarkvittun í höndum af fyrri greiðslu afborgana þá gildir gamla reglan um fullnaðargreiðsluáhrif afborgana af skuldabréfum, sem hefur verið í gildi frá 1791. Sú niðurstaða var fengin af öllum nýju dómurunum fjórum í sjö manna dómi en þrír dómarar í minni hlutanum voru hluti af þeim fimm manna meiri hluta eða fimm manna einróma ákvörðun sem hafði kveðið upp dóminn 16. september 2010.

Við höfum því mjög nýlegt afdrifaríkt dæmi hvað varðar réttaröryggi um að það að fjölga í Hæstarétti til að leysa álag á dómskerfið getur haft alveg svakaleg áhrif. Niðurstaðan í því máli hefur síðan valdið því, sem lá auðvitað alltaf fyrir og var ástæðan fyrir því að hin svokölluðu Árna Páls-lög voru sett, að álagið á dómskerfið af einstaklingsbundinni úrlausn allra þeirra álitamála sem risu var gríðarlegt. Þess vegna var verið að reyna að lesa í dóm Hæstaréttar og skapa almenna reglu byggða á þeim sjónarmiðum sem þar lægju til grundvallar og hafa eins hóflegt inngrip í kröfurétt og mögulegt væri.

En það sem gerist síðan er að Hæstiréttur skiptir einfaldlega um skoðun. Það er ekki vegna þess að dómararnir skipta um skoðun heldur vegna þess að það koma nýir dómarar í dóminn. Ég held að þetta eigi að vera okkur alvarlegt viðvörunarljós ef við höldum áfram á sömu braut án grundvallarbreytinga. Við munum alltaf standa frammi fyrir því að það koma einhverjir tímabundnir álagstímar og þessi staðreynd getur einfaldlega leitt til þess að fordæmisgildi dóma Hæstaréttar verður mjög slakt og mjög erfitt að ráða í það. Ef við ætlum að verja grundvallarregluna um að löggjafinn stígi ekki inn í réttarágreining sem er fyrir dómstólum, eins og við sögðum mörg í ríkisstjórninni sumarið 2010, þá verður á móti að vera hægt að treysta réttarskapandi dómum Hæstaréttar og byggja á þeim meginreglur sem standast. Það er ófært að vera í limbói þannig að löggjafinn geti ekkert gert og að dómsvaldið ákveði sambærileg tilvik með ósambærilegum hætti árum saman. Það skapar samfélagsupplausn og samfélagsósætti.

Ég hef heyrt þau rök að eðlilegt sé að það verði aðeins fimm dómarar í Hæstarétti og að þeir dæmi alltaf í öllum málum, en mér finnst í sjálfu sér þessi reynsla og sú útfærsla skynsamleg sem er í frumvarpinu á því að varadómarar heyri í reynd sögunni til að öðru leyti en því að þeir komi inn sem fyrrverandi dómarar. Ég held að þá sé alveg tryggt að það verði alltaf sjö mönnum til að dreifa til að dæma hin stóru álitamál, hina réttarskapandi dóma, og hinir geta þá haldið áfram og allir eru þá bundnir þótt einungis fimm sitji í dómnum á hverjum tíma.

Hvað varðar síðan skipun dómara eru hér nokkur ný ákvæði. Ég fagna þeirri grundvallarreglu sem mælt er fyrir um í 11. gr., að tilnefningaraðilar skuli tilnefna bæði karl og konu jafnt í sæti aðalmanns sem varamanns í dómnefndina. Við höfum haft mikla umræðu um það hversu einsleit dómnefnd eða umsagnarnefnd hefur verið. Ég tel það mjög mikilvægt fyrir okkur. Mér finnst líka skipta miklu máli að sjá í 12. gr. meginregluna um skipan dómara.

Í ákvæðinu segir að óheimilt sé að skipa í dómaraembætti mann sem dómnefnd hefur ekki talið hæfastan meðal umsækjenda, hvort heldur er einn eða samhliða öðrum. Þó megi frá því víkja ef Alþingi samþykkir tillögu ráðherra um heimild til að skipa í embættið annan nafngreindan umsækjanda sem fullnægir að mati dómnefndar öllum skilyrðum til að hljóta skipun í embættið. Ég skil það þá sem tvíþætt mat, þ.e. ef menn uppfylli almennu hæfnisskilyrðin sé hægt að koma með tillögu til Alþingis um skipan, jafnvel þótt viðkomandi sé ekki hæfastur. Kannski er það skásta leiðin til að koma í veg fyrir misbeitingu ráðherravalds við skipun dómara að samþykki Alþingis sé áskilið ef menn ætla að víkja frá því að skipa þann hæfasta.

Ég var áður í andsvari búin að víkja að endurupptökunefnd og skipan hennar. Mér finnst í sjálfu sér svolítið erfitt að átta mig á fullnaðarafleiðingum hins nýja dóms Hæstaréttar hvað varðar endurupptökunefndina og ekki alveg einfalt að gera það. Ég hef meira að segja verið að spyrja dómara að því og þeir virðast nokkurn veginn jafn ráðvilltir og ég gagnvart skilningi þessa. En eins og ég skil dóminn snýr álitamálið að því hvort endurupptökunefnd sem stjórnsýslunefnd geti tekið fullnaðarákvörðun. Mér finnst það ekki alveg ljóst hér hvert hlutverk endurupptökunefndar er eftir þessa breytingu. Ég heyri á hæstv. ráðherra að í bígerð eru frekari breytingar á lögum um endurupptökunefnd og kannski er rétt að vísa málinu þangað.

Vegna þeirrar sögu sem við höfum um Hæstarétt, sem hefur verið fullkomlega ófær um að horfa með sanngjörnum og réttmætum hætti á endurmat mála sem augljóslega hafa átt erindi í endurupptöku, eins og Geirfinnsmálið er besta dæmið um, hef ég af því þungar áhyggjur ef sú tilraun sem endurupptökunefnd auðvitað var eyðileggst án þess að neitt annað komi í staðin. Ég held að í ljósi reynslunnar sé ófært að fella þetta í hendur Hæstaréttar sjálfs. Það er ekki hægt að orða það á neinn annan hátt.

Ég get vitnað í þáverandi hæstv. forsætisráðherra Davíð Oddsson þegar synjun Hæstaréttar kom á endurupptöku Geirfinnsmálsins árið 1996, 1997 eða 1998 eða hvenær svo sem það var. Hann gagnrýndi þá niðurstöðu harðlega og ég gat tekið undir hana að einu og öllu leyti, það er óhjákvæmilegt að til sé einhver leið til endurupptöku. Og ef hugmyndin um endurupptökunefnd sem sjálfstæða nefnd gengur ekki vegna stjórnarskrárákvæða um að dómstólar einir eigi að endurupptaka dóma finnst mér að við eigum að skoða í þingnefnd með þetta frumvarp af alvöru hvort breyta eigi endurupptökunefnd í dómstól með þeim hætti sem ég rakti í andsvari áðan.

Nú er tími minn á þrotum. Ég ítreka þakkir til hæstv. ráðherra fyrir að hafa lagt þetta mál fram og hrósa henni aftur fyrir það.