145. löggjafarþing — 91. fundur,  18. mars 2016.

menningarminjar o.fl.

606. mál
[13:44]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég er með tvær spurningar við framsögu ráðherra. Í fyrsta lagi spyr ég um það sem varðar flutning á ráðgjöf og mótun stefnu að því er varðar friðlýsingu húsa inn í ráðuneytið, þ.e. breytingu á því ferli sem verið hefur hér um allnokkurt skeið, að það sé hlutverk og verkefni ráðherra að staðfesta tillögur sem honum berast.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvernig sér hann fyrir sér að sérfræðiþekking verði til eða flytjist inn í ráðuneytið? Gerist það með því að bæta við starfsmönnum eða hvað?

Í ákvæðinu stendur að í stað „Minjastofnun“ komi orðið ráðherra en ekki orðið „ráðuneyti“. Ég vil spyrja hvort hæstv. ráðherra telji sjálfan sig búa yfir þessari sérfræðiþekkingu, að hann hafi þá bæði tök á því væntanlega að ráðleggja sjálfum sér og gera tillögur til sín sjálfs um það hvaða hús eigi að friðlýsa.

Í öðru lagi langar mig að spyrja ráðherrann út í samráðskaflann í greinargerðinni. Fram kemur að haft hafi verið samráð um meginefni frumvarpsins við allnokkra aðila. Nú vill svo til að þungavigtaraðilar hafa lýst sig andsnúna málinu að öllu leyti. Ég nefni Félags íslenskra safna og safnamanna, ég nefni Minjastofnun, ég nefni námsbraut í fornleifafræðum.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvaða vægi hafa þessir aðilar í hans huga þegar kemur að því að endurskipuleggja sviðið með svo afdrifaríkum hætti sem hæstv. ráðherra leggur til?