145. löggjafarþing — 91. fundur,  18. mars 2016.

menningarminjar o.fl.

606. mál
[13:50]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér finnst það kannski áhyggjuefni í þessu máli hversu mikil og hörð viðbrögð hafa komið frá þeim sem málið varðar. Það eru ólíkir hópar sem hafa látið í sér heyra og ekki oft sem maður fær sem þingmaður svona mikið af tölvupóstum og símhringingum og athugasemdum. Ég upplifði það þannig að margir hafi verulega miklar áhyggjur af þessu frumvarpi og hafi margt við það að athuga. Þá velti ég því fyrir mér hvort þetta sé í raun nægilega vel unnið. Það er kannski, ef ég skil rétt, ár frá því þessi hópur var settur á fót og farið að skoða málið að ráði. Þegar það verða svona hörð viðbrögð þá er það mín upplifun að ekki hafi nógu vel verið vandað til verka því að markmiðið hlýtur að vera að fá sem flesta með í þennan leiðangur og að þeir sem eiga hagsmuna að gæta og vinna í geiranum séu sem mest áfram um þær breytingar sem verið er að fara í. Það finnst mér áhyggjuefni.

Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvort hann sé sammála mér í því að kannski hefði mátt vanda betur til verka, fara aðeins hægar og hafa meira samráð við hlutaðeigandi í öllu ferlinu. Það getur ekki verið markmið hvort hæstv. forsætisráðherra eða einhver annar leggur fram frumvarp sem fær jafn mikla gagnrýni og þetta frumvarp.