145. löggjafarþing — 91. fundur,  18. mars 2016.

menningarminjar o.fl.

606. mál
[14:15]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu og fína yfirferð yfir þau álitamál sem hér eru uppi. Svo virðist sem málið sé afar vanbúið og þó að það sé rétt sem fram kom í máli ráðherra að það sé jafnan þannig að upp komi ákveðið viðnám og áhyggjur þegar til stendur að sameina stofnanir eru áhyggjurnar hér töluvert þyngri og lúta að faglegum þáttum málsins.

Maður er að reyna að glöggva sig á röksemdunum sem eru á köflum mjög losaralegar. Svo virðist sem ráðherra kjósi að setja allt sitt traust á ráðgjafarfyrirtækið Capacent. Það er mikið umhugsunarefni þegar um er að ræða viðkvæma fræðigrein og afar dýrmætan þátt íslenskrar menningar sem eru fornleifamálin, bæði rannsóknir og utanumhald þess málaflokks, að hæstv. ráðherra skuli, bæði í greinargerð með málinu og ekki síður í svörum við þeim andsvörum sem fram hafa komið, vísa ítrekað í ráðgjafarfyrirtækið Capacent.

Mér er ekki kunnugt um að ráðgjafarfyrirtækið Capacent búi yfir nokkurri þeirri sérfræðiþekkingu sem dugar til þess að gera svo róttækar tillögur um breytingar á skipulagi og fyrirkomulagi þessa málaflokks. Ég vil spyrja hv. þingmann: Sér hún þess stað að ráðgjafarfyrirtækið Capacent hafi leitað sér efnislegrar og faglegrar ráðgjafar áður en fyrirtækið gaf ráðherra þá ráðgjöf (Forseti hringir.) sem er grundvöllur frumvarpsins?