145. löggjafarþing — 91. fundur,  18. mars 2016.

menningarminjar o.fl.

606. mál
[14:19]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni svörin. Ég spurði ráðherra áðan um þá vangaveltu hvort hér væri ekki fyrst og fremst um að ræða mál sem stafaði af hans persónulega áhuga á tilteknum málaflokki, sem liggur fyrir í nálgun hans og aðkomu að stjórnmálum um nokkurt skeið að er miðlægt á áhugasviði hans. Ég spurði ráðherrann áðan hvort hann teldi ekki fara vel á því þannig að hann skildi nú ekki eftir sig nokkurs konar mannvistarleifar, ef svo má að orði komast, í ráðuneytinu þar sem væru einhvers konar menjar um hans persónulega áhugasvið, að það færi þá best á því að lög þessi gengju úr gildi á kjördegi 2017, þar sem það er nánast einboðið að málið mun verða leiðrétt ef eitthvert vit verður sett hér í hlutina að afloknum næstu kosningum. Í besta eða versta falli kemur einhver forsætisráðherra sem hefur áhuga á einhverju allt öðru en húsvernd og minjamálum. Hann mundi þá kannski vilja taka til sín allt önnur mál, ef viðkomandi lítur til núverandi forsætisráðherra sem fyrirmyndar í því hvernig umgangast eigi Stjórnarráðið, sem er annað áhyggjuefni.

Mig langar að spyrja: Hver telur hv. þingmaður vera brýnustu viðfangsefni nefndarinnar við umfjöllun um málið? Hún talar við fólk og hlustar eftir þessum athugasemdum sem eru verulega þungar. Lykilstofnanir eins og Minjastofnun sjálf sér ástæðu til að senda frá sér mjög vel rökstudda ályktun gegn málinu. Þá er spurningin sem lifir eftir sú hvort þingmaðurinn sé ekki sammála mér um að hér sé í raun um enn eitt dellumál forsætisráðherra að ræða sem þingið verður að freista þess að afstýra með öllum úrræðum.