145. löggjafarþing — 91. fundur,  18. mars 2016.

menningarminjar o.fl.

606. mál
[14:34]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Fjarvera hæstv. forsætisráðherra hér úr þinginu meðan þessar fréttir hafa dunið yfir land og lýð um fjárhagslega fjölskylduhagsmuni hans hefur komið illa við þingheim eins og gefur að skilja. Þess vegna hefur að sjálfsögðu verið kallað eftir viðveru hans. Nú er hann hér í húsi að ræða annað mál og þess vegna finnst mér eðlilegt að blanda mér fyrst í þá umræðu núna að honum viðverandi.

Það er ámælisvert og mér finnst að ráðherrann þurfi að skýra það betur hvers vegna hann upplýsti ekki um þessi fjárhagslegu tengsl sín, fjárhagslega hagsmuni sína, sem hafa núna komið í ljós og varða milljarðaupphæðir sem eiginkona hans mun hafa geymt í skattaskjóli erlendis á sama tíma og hæstv. ráðherra hefur haft mikil afskipti af málefnum kröfuhafa og slitastjórna vegna uppgjörs bankanna og umræðu um losun gjaldeyrishafta og fleira. (Forseti hringir.) Það er augljóst að hæstv. ráðherra lifir í öðru hagkerfi en íslenskur almenningur og leynd yfir þessum upplýsingum getur ekki talist eðlileg, virðulegi forseti.