145. löggjafarþing — 91. fundur,  18. mars 2016.

menningarminjar o.fl.

606. mál
[14:45]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég veit ekki hvort hv. þm. Frosti Sigurjónsson átti við mig eða hvað þegar hann talaði um þingmenn lágkúrunnar í þessu samhengi en ég ætla að stökkva fyrir þá byssukúlu vegna þess að ég hef tjáð mig í þessu máli. Mig langar að segja hérna nokkra hluti. Ég hef enga skoðun á eignum eiginkonu forsætisráðherra og ég er ekkert að fjalla um þær. Hún er alveg ágætismanneskja. Ég er að fjalla um hæstv. forsætisráðherra og skyldur hans við þingið og ég sé ekki betur en að hæstv. forsætisráðherra hafi brotið gegn ákvæðum siðareglna sem við vorum að setja okkur.

Ég er þessarar skoðunar, mér finnst þetta frekar augljóst og þá hlýt ég að spyrja, og við erum væntanlega að feta okkur áfram á þessari braut: Hvað ætlum við að gera við þessar siðareglur?

Nú hlýt ég að spyrja hæstv. forseta: Megum við búast við því í framtíðinni, þeir þingmenn (Forseti hringir.) sem vilja kannski taka þessar siðareglur alvarlega og það sem í þeim stendur, að vera kallaðir af öðrum þingmönnum þingmenn lágkúrunnar ef þeir fjalla um þau mál?