145. löggjafarþing — 91. fundur,  18. mars 2016.

menningarminjar o.fl.

606. mál
[14:52]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það er athyglisvert að hv. þm. Frosti Sigurjónsson hefur ákveðið að yfirgefa þingsalinn núna eftir að hafa kallað þingmenn þeim nöfnum sem hann fór hérna yfir áðan, þ.e. þingmenn lágkúrunnar. Fyrir hvað? Fyrir að óska eftir því að forsætisráðherra geri grein fyrir hagsmunum sínum tengdum erlendu félagi skráðu á Bresku Jómfrúreyjunum, fjölskyldutengslum, að hann geri þinginu grein fyrir því hvernig í ósköpunum honum hafi dottið í hug að halda þeim upplýsingum leyndum fyrir þingi og þjóð. Hann lét sér detta í hug á einu augnabliki 2013 að opinbera það en hætti við, segir hann sjálfur í opinberri yfirlýsingu, þangað til fréttamenn komu síðan að þessu núna í vikunni og fóru að spyrja hann.

Hv. þm. Frosti Sigurjónsson má kalla þingmenn þingmenn lágkúrunnar en það væri málinu til bóta fyrir hann að nafngreina þá þingmenn sem hann telur lágkúrulega og tala hér sem þingmenn lágkúrunnar (Forseti hringir.) í stað þess að sletta aurnum á þá alla.