145. löggjafarþing — 91. fundur,  18. mars 2016.

menningarminjar o.fl.

606. mál
[15:19]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er auðvitað ansi léttvægt í þessari umræðu að halda að það friði einhverja að stofnunin fái að bera nafn Þjóðminjasafns Íslands áfram í stað Þjóðminjastofnunar. Það er varla stóra málið í öllu þessu samhengi eða það umdeildasta heldur hvaða hlutverki viðkomandi stofnun á að gegna. Að því beinist auðvitað gagnrýnin, hvað er verið að skerða og taka frá stofnuninni og hvaða hlutverki hún gegnir og hvað er verið að færa frá henni undir væng forsætisráðherra. Sú gagnrýni sem hefur komið fram sem ég hef vitnað til er auðvitað bara á faglegum nótum um innihald en ekki umbúðir.

Sameiningar stofnana eins og þær hafa verið eru mjög viðkvæmar. Þess vegna skiptir svo miklu máli að undirbúa þær mjög vel og hafa sem mest samráð og samstarf við þá aðila sem málið varða. Það samráð og sú samvinna hefur ekki farið fram í þessu ferli eins og það liggur fyrir. Það er ekki hægt að skýla sér bara á bak við Capacent í þeim efnum, það verður að horfa til greinarinnar sjálfrar og þeirra aðila sem hafa fjölda ára reynslu að baki og þekkja málið gleggst. Stundum finnst manni að menn ætli alltaf að stytta sér leið, séu búnir að panta niðurstöðuna fyrir fram í einhverju máli eins og þessu, vilji sjá að þetta verði svona og verkefni fari inn í forsætisráðuneytið að hluta, gæluverkefnin, síðan verði stofnanirnar sameinaðar — menn panti þær niðurstöður og ráðgjafafyrirtæki eins og Capacent vinni bara eftir þeirri uppskrift sem það fær í hendurnar.