145. löggjafarþing — 91. fundur,  18. mars 2016.

menningarminjar o.fl.

606. mál
[15:26]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í þessari grein og í fleirum er svo glöggt hægt að sjá hversu ótrúlega hættuleg hugsun um lagasetningu býr að baki frumvarpinu. Hæstv. ráðherra ákveður að skipta upp viðfangsefnum varðandi vernd menningarminja og taka hluta af því og setja það undir ráðherra. Af hverju? Er ekki augljóst að það er vegna þess að hann situr núna sem ráðherra og hefur áhuga á þessu? Það eru engin fagleg rök fyrir því að gera einhvern greinarmun á húsum og mannvirkjum og skipum og bátum. Hér býr augljóslega að baki alveg gríðarleg vanþekking á því hvaða hlutverki stofnanir gegna, hvað það þýðir í lýðræðissamfélagi að ákvarðanir séu teknar faglega og menn geti treyst því að þær séu teknar á faglegum grunni. Það er fínt ef ráðherra hefur áhuga á málaflokknum og fínt ef hann hefur þekkingu á þeim, en það er alveg rosalega slæmt að hann sjálfur, ráðherrann, taki þessar ákvarðanir.

Mig langar að biðja hv. þingmann að hugsa það aðeins með mér. Ég ætla ekki að ganga út frá því að hæstv. núverandi forsætisráðherra verði forsætisráðherra áfram eftir eitt ár, en hvað ef það verður forsætisráðherra sem hefur engan áhuga á vernd byggða eða vernd húsa, jafnvel þvert á móti, ef hann ber enga virðingu fyrir þessum sjónarmiðum að þurfa að vernda einhver sögulega mikilvæg hús? Hvar erum við þá stödd varðandi þessa lagaumgjörð? Hvað eigum við þá að gera, þingheimur, ef sú staða (Forseti hringir.) blasir við að við fáum kannski ráðherra sem hefur vald til að koma í veg fyrir alla húsafriðun í landinu?