145. löggjafarþing — 91. fundur,  18. mars 2016.

menningarminjar o.fl.

606. mál
[15:36]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Forseti. Þingið er orðið hálfgerður leiksoppur duttlunga ráðherranna. Við biðum í dag í einn og hálfan tíma eða hvað það var eftir því að forsætisráðherrann kæmi. Hann ku hafa sagt að hann gæti flutt þetta mál sitt, sem er mikið hugðarmál hans, hlýtur að vera því að það kemur fram með miklum látum, klukkan hálftvö í dag. Síðan getur hann ekki setið hér með okkur.

Ég bendi líka á það sem hv. þm. Svandís Svavarsdóttir vakti athygli á, að sjálfstæðismenn sjást hér ekki. Það virðist reyndar vera lenska að þegar framsóknarráðherrar leggja fram umdeild frumvörp hverfa sjálfstæðismennirnir. Einstaka samviskusamur framsóknarmaður sést en annars eiginlega (Forseti hringir.) enginn úr þeim flokki heldur.