145. löggjafarþing — 91. fundur,  18. mars 2016.

menningarminjar o.fl.

606. mál
[15:38]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég tek undir vangaveltur þingmanna um hvar þingflokkur og þingmenn Sjálfstæðisflokksins séu. Þegar farið er yfir umsagnir um þetta kostulega mál lítur það þannig út, og er mjög auðvelt að draga þá ályktun, að engin stofnun á Íslandi mæli með þessu máli nema Sjálfstæðisflokkurinn. Þetta hefur farið í gegnum eina stofnun, verið hleypt þar í gegn, og það er þingflokkur Sjálfstæðisflokksins. Þetta mál er þannig á hans ábyrgð hér inni rétt eins og flutningsmanns, hæstv. forsætisráðherra. Þess vegna hlýtur að vera eðlileg krafa, hið minnsta, að talsmenn þingflokksins, þingflokksformaður og talsmenn þingflokksins í þessu máli, sitji í þessum sal undir þessari umræðu og að forsætisráðherra hljóti, og það gerum við að skilyrði til að umræðan geti haldið áfram, að sitja í salnum og taka þátt í umræðunni. Ég geri þá kröfu til forseta (Forseti hringir.) að fundi verði frestað, þótt ekki sé nema í takmarkaðan tíma, meðan gerð verður tilraun til að færa forsætisráðherra í þingsal.