145. löggjafarþing — 91. fundur,  18. mars 2016.

menningarminjar o.fl.

606. mál
[15:40]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Í framhaldi af því sem verið er að ræða og undir liðnum fundarstjórn forseta spurði ég hæstv. forsætisráðherra áðan í andsvari hvort ég væri ekki að skilja það alveg 100% rétt að málið hefði verið samþykkt af bæði ríkisstjórn og þingflokki Sjálfstæðisflokksins. Mér finnst bera á því að mál sem koma hingað inn séu í rauninni á ábyrgð einstakra flokka en ekki ríkisstjórnarinnar í heild eða þingflokkanna. Náttúrupassinn var dæmi um slíkt mál þar sem framsóknarmaður sást varla í pontu. Skuldaniðurfellingin annað. Og hér fáum við mál þar sem samstarfsflokkurinn, Sjálfstæðisflokkurinn, virðist ekki hafa neina skoðun á því. Mér finnst það mjög bagalegt ef við ræðum mál þannig, það eru margar spurningar sem vakna og enginn er í rauninni til að svara þeim. Mér finnst það eiginlega ekki boðlegt. Það er oft þannig að í 1. umr. þarf kannski ekkert endilega að ræða mjög mikið en þegar mál er umdeilt eins og hér um ræðir þá verður það hálfskrýtið að við í stjórnarandstöðunni séum að spyrja hvert annað. En þannig er það nú.

Það er margt sem vekur spurningar í þessu máli eins og ég segi, til dæmis um forstöðumann eða þjóðminjavörð sem getur jafnframt líka verið safnstjóri, ein og sama manneskjan. Mér finnst það ekki vera útskýrt hvernig það eigi að geta verið gott mál. Annaðhvort þarf bara eina manneskju í slíkt verkefni eða tvær. Það er ekkert lítið sem hér um ræðir. Um fjárhagslegan ávinning af málinu, mér finnst það ekki nógu vel unnið. Kannski liggja fyrir ítarlegri greiningar, ég ætla ekki að fullyrða neitt um það. Við munum biðja um það í fjárlaganefndinni. En eins og segir á bls. 18 þegar verið er að tala um áhrif frumvarpsins:

„Frumvarpið hefur því jákvæð áhrif á almenning ef það markmið sem að er stefnt um rekstrarlegt hagræði nær fram að ganga og engin neikvæð áhrif fyrir almenning sem nauðsynlegt er að bregðast sérstaklega við.“

Mér finnst eins og það sé ekki fast í hendi hvort þetta rekstrarlega hagræði nái fram að ganga. Þegar tölurnar á bls. 20–22 eru skoðaðar er þessi hagræðing um 4%. Það er ekki mikill ávinningur og allt frekar loðið um hvort þetta muni yfir höfuð ná fram að ganga. Mér finnst það ekki nógu gott. Ég vek því athygli á þessu og tel rétt að fjárlaganefnd kalli eftir ítarlegri samrunaáætlun í þessu sambandi.

Það vakti líka athygli mína þegar talað er um áhrif þessarar sameiningar á bls. 13 hvað gert er mikið úr því að þetta geti haft jákvæð áhrif. Talað er um samlegð, samlegðaráhrif, samþættingu, aukna samhæfingu og að aukin stærð leiði til að stoðþjónustan nýtist betur og verði sterkari, betri geta til að forgangsraða til lengri tíma og að sameining þessara stofnana geti verið þáttur í að auka framleiðni. Ég man ekki betur en að núverandi ríkisstjórn hafi byrjað á því að fjölga ráðherrum. Oft geta alveg verið rök fyrir því að hafa minni einingar og meiri stjórn. Mér finnst þetta á bls. 13 svolítið yfirborðskennt, eins og menn hafi ákveðið það og svo fundið rökin. Ég ætla ekki að gefa mér að það hafi verið þannig, en mér finnst þetta ekki nógu gott.

Ýmis sjónarmið hafa komið fram sem ég get svo sem endurtekið og eru mjög sérstök, til dæmis það að oft er verið að færa valdið til ráðherra, þ.e. sem áður var hjá Minjastofnun, að færa svona fagmálaflokk inn í ráðuneyti forsætisráðherra. Maður getur næstum hlegið að þessu eða brosað út í annað að minnsta kosti, en það er ekkert sniðugt við þetta og er ekki eitthvað sem við eigum að — hvað á ég að segja, rétt eins og okkur finnst ekki lengur merkilegt að hæstv. forsætisráðherra sé ekki til staðar í umræðum um hans mál, þá erum við farin í hvert skipti sem hann sópar nýjum málaflokki inn í ráðuneytið bara farin að hrista hausinn. Þetta er auðvitað ekki boðlegt. Næsti forsætisráðherra, ef hann fær áhuga á einhverjum málaflokki, ætlar hann þá að hvomsa þeim inn í forsætisráðuneytið? Eiga svona málaflokkar yfir höfuð heima í forsætisráðuneytinu? Ef ég næ því einhvern tíma að verða ráðherra, væri forsætisráðherra og hefði áhuga á neytendamálum, mætti ég bara taka þau og setja í forsætisráðuneytið? Hvað með samstarfsflokkinn? Ég ætla rétt að vona að samstarfsflokkurinn mundi ekki samþykkja það. Það væri náttúrlega bara algert rugl. Þetta er eiginlega alveg galið, virðulegi forseti, svo það sé sagt. Ég skil ekki að ríkisstjórnin og aðrir skuli ekki stíga niður fæti og segja: Heyrðu, nú stoppum við í þessari vegferð. En það er ekki svo. Rétt eins og með þetta frumvarp, ef það er vilji hæstv. forsætisráðherra að það fari í gegn mun það væntanlega gera það þótt ég einhvern veginn gefi mér að ekki sé mikill áhugi á því hjá samstarfsflokknum miðað við til dæmis mætinguna hingað inn í þennan sal.

Einnig hefur verið bent á að ólík hlutverk séu í þessum stofnunum í dag, Þjóðminjasafni og Minjastofnun, að þau samræmist ekki endilega. Annars vegar rannsóknarhlutverk og svo stjórnsýsluhlutverk. Það hefur líka verið nefnt af hálfu forsætisráðherra að reynslan af núverandi fyrirkomulagi sé ekki góð. Það kemur reyndar fram í greinargerðinni. Minjastofnun var sett á laggirnar árið 2013, þannig að það er stutt síðan. Mér finnst að fara eigi varlega og undirbúa miklum mun betur svo viðamiklar breytingar og helst mundi ég vilja sjá, í raun ætti það að vera þannig, að þegar við erum að fara í svona breytingar sem eiga að vera til langs tíma og til að bæta stöðuna, þá ættum við að vinna þetta meira þverpólitískt. Nefna má útlendingalögin og hvernig vinnan við þau var, þar sem þverpólitískur hópur, fulltrúar allra flokka, var fenginn að málinu frá upphafi. Til þess erum við kosin á þing, við höfum skoðanir og stöndum fyrir eitthvað. Síðan eru það í rauninni ráðherrarnir sem dútla eitthvað við sína stefnu og áhugamál í ráðuneytum sínum og svo fáum við frumvörpin inn í þingið, t.d. þetta frumvarp, mjög vont þegar slíkt er ekki vel unnið í grunninn. Ég spyr hvort það hafi verið sent í opið umsagnarferli. Mér finnst ég lesa það út úr því sem fram kemur á bls. 16–17 að það hafi ekki verið gert. Nú ætla samt ég alls ekki að halda því fram. En talað er um að fjölmörgum hagsmunaaðilum hafi verið kynntar hugmyndir og tillögur í ferlinu, og það talið upp, og síðan taldir upp þeir aðilar sem ég skil þannig að hafi þá fengið að senda inn umsögn um frumvarpið. Félag fornleifafræðinga, Þjóðminjasafn Íslands og Minjastofnun Íslands gerðu það. Mér finnst mjög mikilvægt í svona málum að umsagnarferli sé opið þannig að hægt sé að gera athugasemdir við málið í ferlinu og þegar við fáum frumvarpið inn í þingið sé það eins vandað og mögulegt er. Það er erfitt að fá frumvörp inn sem þarf að gera viðamiklar breytingar á ef það verður niðurstaða nefndarinnar, sem ég eiginlega gef mér að verði.

Hér er því eitt og annað sem er athyglisvert og jafnvel ámælisvert. Bent hefur verið á að verið er að taka húsavernd inn í ráðuneytið meðan skipin verða eftir hjá þessari nýju stofnun. Ekki veit maður hvað það á eiginlega að fyrirstilla. Mér finnst líka, ég þarf að kynna mér það betur, en ég átta mig ekki alveg á hlutverki húsafriðunarnefndar eftir að þessu verður breytt. Hún verður ráðgefandi, vissulega. En valdið virðist samt vera hjá ráðherra þegar kemur að friðun.

Peningar hafa svo sem verið settir í þennan málaflokk eftir að forsætisráðherra tók hann yfir, ef svo má segja. Á fjáraukalögum strax árið 2013, ef ég man rétt, var bætt í. Það er svo sem ljóst að þeir málaflokkar sem forsætisráðherra hefur áhuga á fá kannski aðeins meiri fjármuni en margir aðrir. Það er í sjálfu sér athyglisvert.

Ég hlakka í rauninni til að sjá umsagnirnar. Ég á von á miðað við þá gagnrýni sem komið hefur fram á málið í fjölmiðlum, í tölvupósti og símtölum sem við þingmenn höfum verið að fá verði fjölmargar umsagnir. Ég vona að nefndin fari mjög vandlega yfir málið. Ég vona náttúrlega helst að það komi ekki aftur hingað í þingsal, mér finnst þurfa að vinna það miklu betur. En ég legg áherslu á að ef umsagnirnar eru upp til hópa neikvæðar, og það er gríðarlega mikil gagnrýni á þessa sameiningu, verður að taka það alvarlega. Við eigum ekki að þurfa að knýja eða þvinga í gegn sameiningar. Það er eðlilegt að einhver andstaða sé þegar verið er að sameina stofnanir en við eigum dæmi um að það hafi tekist vel til, og það er af því að allir eru hafðir með í ráðum frá upphafi og skýrt liggur fyrir hvert markmiðið er. Ég sé ekki af hverju það ætti ekki að vera þá líka hér. Sú gagnrýni sem mér hefur helst fundist bera á er að akkúrat samlegðaráhrif þessara tveggja stofnana séu ekki endilega svo mikil. Það mætti hugsa sér aðrar sameiningar í þessum geira. En það skiptir miklu máli að hlustað sé á athugasemdirnar, tekið mark á þeim og það má ekki alltaf horfa á, eins og mér fannst hæstv. forsætisráðherra gefa í skyn, að sameiningar væru alltaf óvinsælar. Síðan yrði fólk ánægt þegar búið væri að sameina. Það eru nú ekki góð rök. En auðvitað er skiljanlegt að fólk er ekki endilega alltaf tilbúið í breytingar. Þess vegna þarf einmitt að vanda til verka og hafa alla með frá byrjun.

Rætt hefur verið um skýrslu Capacent. Hún ætti auðvitað að vera fylgigagn við málið. Hún er aðgengileg, ég er alla vega með hana undir höndum.

Mér finnst þetta með furðulegri málum sem við erum að fá inn í þingið í ár og við erum að bíða eftir stórum málum, útlendingamálum og fleiri málum. Ef á að fara að leggja áherslu á þetta mál þá finnst mér það sérkennilegt.