145. löggjafarþing — 91. fundur,  18. mars 2016.

menningarminjar o.fl.

606. mál
[16:00]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get ekki svarað til um það hvers vegna, en mér sýnist það svolítið vera stemningin að hafa ekkert endilega samráð. Kannski er það vegna þess að það hefur verið þannig að stjórnvöld koma málum sínum yfirleitt í gegn og þurfa ekkert á því að halda að það sé eitthvert samráð eða samvinna eða sátt um þau. Það er mjög miður.

Ég nefndi áðan útlendingalögin eða vinnuna við þau vegna þess að mér finnst mjög flott hvernig það var gert. Þar komu allir að borðinu í upphafi og voru samtaka. Í 80% tilfella eigum við við mál þar sem við erum í grunninn sammála. Ég er ekki að segja að það geti ekki verið ýmislegt í þessu frumvarpi sem er til bóta, eflaust er það svo og það hefur komið fram í sumum af þeim tölvupóstum sem ég hef fengið, en það er algjör (Forseti hringir.) óþarfi að gera sameiningu stofnana að umdeildu og óvinsælu máli. Ég skil ekki af hverju menn vinna þannig.