145. löggjafarþing — 91. fundur,  18. mars 2016.

menningarminjar o.fl.

606. mál
[16:03]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er ekki endilega á móti sameiningum stofnana ef þær eru til bóta og það liggur ljóst fyrir. Á þessu kjörtímabili hafa verið allnokkrar sameiningar og sumar hverjar hafa í rauninni farið nokkurn veginn í gegn án vandræða. Það getur verið spurning um stærðarhagkvæmni og að starfskraftar nýtist betur og ýmislegt fleira.

En eitt af því sem er svo einkennilegt við þetta er einmitt að verið sé að færa hluta af málaflokknum inn í forsætisráðuneytið sem mér finnst eiga heima í mennta- og menningarmálaráðuneytinu og bara yfir höfuð að verið sé að taka einstaka málaflokka inn í forsætisráðuneytið. Ég hefði haldið að forsætisráðherra ætti fullt í fangi með að vera sá verkstjóri sem hann á að vera yfir þessari ríkisstjórn.

Hvað gerist svo eftir ár þegar nýr skipstjóri kemur í brúna? Verður þessum lögum þá breytt? Það er vond lagasetning sem verið er að troða í gegn hérna. Þeir sem verða þá á þingi verða þá bara að breyta lögunum. Það er ekki gott. Við viljum ekki vera að setja lög til þess að þurfa strax að breyta þeim. Við viljum setja lög þannig að við horfum fram í tímann og til að þau standi. Þess vegna er samráð einmitt svo mikilvægt, að við horfum út yfir kjörtímabil.

Það er gott að hæstv. forsætisráðherra hafi persónulegan áhuga til dæmis á friðun húsa. Ég deili þeim áhuga með hæstv. ráðherra. En málaflokkurinn hefur nákvæmlega ekkert að gera í forsætisráðuneytinu að mínu mati.