145. löggjafarþing — 91. fundur,  18. mars 2016.

menningarminjar o.fl.

606. mál
[16:06]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér sýnist á þeim gögnum sem við höfum undir höndum að í raun sé sparnaðurinn mjög lítill þannig að mér finnast rökin fyrir sameiningu, um að verið sé að hagræða, ekki standast.

Sameiningin er þá frekar til þess að styrkja málaflokkinn og auka þjónustuna og gæðin og þar fram eftir götunum. Það sem ég hef áhyggjur af er að stundum verður beinlínis kostnaður af sameiningum eins og gæti orðið varðandi Menntamálastofnun, sem við þurfum að fylgjast með. Það er það sem við höfum áhyggjur af og við ættum að skoða og það gerum við örugglega í fjárlaganefnd.

Varðandi persónulegan áhuga ráðherra finnst mér það álíka og að fjármálaráðherra taki íþróttamálin úr mennta- og menningarmálaráðuneytinu ef hann hefur áhuga á íþróttum. Fjármálaráðherra ætti ekki að taka neina málaflokka inn í ráðuneyti sitt. Forsætisráðherra tekur húsvernd (Forseti hringir.) og annað dótarí til sín. Ef þetta væru vinnubrögðin almennt væri ekki mikið eftir í mennta- og menningarmálaráðuneytinu.