145. löggjafarþing — 91. fundur,  18. mars 2016.

menningarminjar o.fl.

606. mál
[16:10]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þm. Willum Þór Þórssyni sérstaklega fyrir að vera mjög oft til staðar í málum og taka þátt í umræðum og mættu fleiri þingmenn í stjórnarliðinu taka sér það til fyrirmyndar.

Ég ræddi kannski aðallega um fjárhagslega ávinninginn, það var líka eitt af markmiðunum. Ég get kannski ekki svarað því hvort frumvarpið nái markmiðunum. Það sem ég var eiginlega að gagnrýna var að það sem mér finnst skipta máli er þegar frumvörp fara í opið umsagnarferli meðan þau eru í raun enn í vinnslu í ráðuneytinu. Ráðuneytið er búið að semja frumvarp, setur það í umsagnarferli og fær ábendingar og getur tekið mið af þeim athugasemdum sem koma. Ég les út úr þessu að frumvarpið hafi bara verið sent á Þjóðminjasafn, Minjastofnun og fornleifafræðinga. Í þessu ferli koma oft margar og góðar athugasemdir og mér finnst það skipta máli.

Sumt slær mig ekki sem vitlaust í frumvarpinu og væri bara til bóta. En ég er ekki sannfærð um það atriði að menn geti eiginlega ráðið því hvort þjóðminjavörður og safnstjóri geti verið ein og sama manneskjan, það verði bara að koma í ljós. Þessir tveir aðilar ættu að hafa alveg skýrt verksvið. Ef þetta verður ein og sama manneskjan þá verður verksviðið væntanlega enn þá umfangsmeira. Flutningur í ráðuneytið á ýmsum verkefnum orkar líka tvímælis og þar fram eftir götunum. Þannig að mér finnst allt of margar spurningar vakna. Þess vegna er umsagnarferlið í þinginu gríðarlega mikilvægt. Ég vona að sem flestir sem hafa eitthvað til málanna að leggja sendi inn umsagnir, þannig að við getum skoðað þær og tekið enn þá dýpri umræðu í 2. umr.