145. löggjafarþing — 91. fundur,  18. mars 2016.

menningarminjar o.fl.

606. mál
[16:19]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég þakka formanni allsherjar- og menntamálanefndar fyrir að upplýsa okkur um stöðu mála í nefndinni, en það vekur auðvitað athygli okkar á því hversu gríðarlega ólík vinnubrögðin eru hjá þeim ráðherrum sem eiga mál í nefndinni, annars vegar hæstv. innanríkisráðherra og hins vegar hæstv. forsætisráðherra, því að þau mál sem hér voru undir frá hæstv. innanríkisráðherra eru málefni sem hafa verið rædd í þaula, um þau haft víðtækt samráð, m.a. við alla flokka í þinginu, og eru þess vegna sæmilega búin til þinglegrar meðferðar og hægt að vinna bærilega greiðlega. Hins vegar kemur mál forsætisráðherra eins og skrattinn úr sauðarleggnum hálffyrirvaralaust án þess að nokkurt samráð hafi verið haft við nokkurn áður en það kom hér inn og einhvern veginn er ætlast til þess að það sé afgreitt á örfáum vikum undir lok þings.