145. löggjafarþing — 91. fundur,  18. mars 2016.

menningarminjar o.fl.

606. mál
[16:43]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Hv. þingmaður fór vel yfir það í ræðu sinni hvað honum fyndist um það að verið væri að stökkva til og kippa áhugamálum hæstv. forsætisráðherra inn í forsætisráðuneytið á þann hátt sem frumvarpið boðar. Ég tek undir það með honum.

Það hefur vakið athygli hvað þessi hæstv. ríkisstjórn er verklaus og þarf að líta meira en 20 ár aftur í tímann til að finna ríkisstjórnir sem setja fram eins fá mál. Hér er forgangsmál hæstv. forsætisráðherra til umræðu og aðeins rétt rúmt ár eftir af kjörtímabilinu og ég held að engar líkur séu á því að málið fari í gegn á þessu vorþingi. Ég vil biðja hv. þingmann að velta upp með okkur áherslu ríkisstjórnarinnar og málafæð.