145. löggjafarþing — 91. fundur,  18. mars 2016.

menningarminjar o.fl.

606. mál
[16:45]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er ótrúlega sorglegt hversu mjög hefur dregist hjá hæstv. ríkisstjórn að koma inn með mjög mikilvæg mál. Ég nefndi í ræðu minni til dæmis útlendingafrumvarpið sem hefur verið vel unnið og þarfnast mjög þinglegrar meðferðar og þarfnast þess að við samþykkjum það og förum yfir það. Af hverju kemur það ekki? Af hverju kemur þetta mál í staðinn sem er á engan hátt á neinum skynsamlegum mælikvörðum eitthvert forgangsmál? Öll fagstéttin er á móti því.

Það er eitt sem ég vona að fólk hugsi við þinglegu meðferðina á málinu sem er að það er grímulaust að hér er tiltekinn ráðherra, hæstv. forsætisráðherra, sem vill hafa vald yfir ákvörðunum, veigamiklum ákvörðunum, en hann (Forseti hringir.) verður ekki forsætisráðherra nema í mesta lagi eitt ár í viðbót. Um leið og menn (Forseti hringir.) fatta það, sem ég held að sé mjög auðvelt að fatta, þá (Forseti hringir.) sjá menn betur hversu fáránlegt þetta er.