145. löggjafarþing — 91. fundur,  18. mars 2016.

menningarminjar o.fl.

606. mál
[16:48]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka spurninguna. Ég sé þetta í því samhengi. Ég var einmitt að tala um það í ræðu minni að blessunarlega eru til mjög fínar leiðir fyrir ráðuneyti og ráðherra til að leggja fram frumvarp og reyna að gera það vel. Vissulega eru til umdeild mál en það er líka hægt að leggja fram frumvarp og gera það vel í umdeildum málum, en við höfum fengið allt of fá. Við höfum samt fengið frumvörp sem eru vel unnin og ég held að faglega hliðin á þeim ráðuneytum og ráðherrum sem vilja standa sig vel í þessu hafi eflst. Ég fagna samráði til dæmis í neytendamálum sem hafa átt sér stað á kjörtímabilinu, í útlendingamálum, í afnámi gjaldeyrishafta. Auðvitað hefði mátt vera meira samráð á tímabili en það var samt haft samráð. Mér sýnist margir ráðherrar hafa lagt sig fram þótt hins vegar hafi allt of fá mál komið frá þeim.

En stílbrot á þessu eru frumvörpin úr forsætisráðuneytinu. Þau eru mjög furðulega unnin. Þau eru sett fram í óþökk fjölda fólks og standast ekki kröfur um samráð og rökstuðning. Svo endurspegla þau alveg ótrúlegan skilning á lýðræðinu, ótrúlega nálgun á vald sem maður verður að mótmæla af öllum krafti. Þess vegna voru það gífurleg vonbrigði, fannst mér, að svona furðulegt mál og hættulegt hvað varðar meðferð valds eins og frumvarp um verndarsvæði í byggð var skyldi hafa farið í gegnum þingið og samþykkt. Þar fékk ráðherra vald til að fara fram hjá skipulagslögum í það að vernda heilu byggðirnar. (Forseti hringir.) Það er náttúrlega áleitin spurning á þessum tímapunkti (Forseti hringir.) hvort þessu máli, sem er eins hvað þetta varðar, verði líka hleypt í gegn.