145. löggjafarþing — 91. fundur,  18. mars 2016.

menningarminjar o.fl.

606. mál
[16:53]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir prýðilegustu ræðu sem ég er í meginatriðum sammála. Hv. þingmaður talar nokkuð um hvernig fyrir málinu sé komið. Ég átta mig ekki alveg á því hvert viðhorf hv. þingmanns er til þess hvort beri að sameina þessar stofnanir eða hvað hv. þingmanni finnst um sameiningar stofnana almennt, sér í lagi með hliðsjón af því hvaða forsendur liggja þar að baki. Ég er alveg sammála hv. þingmanni að forsendurnar í þessu tilfelli eru í skásta falli óskýrar þegar kemur að hlið hæstv. ráðherra og hreinlega óæskilegar samkvæmt þeim fagaðilum og hagsmunaaðilum sem ég hef heyrt frá hingað til. Ég velti fyrir mér hvernig hv. þingmaður lítur á sameiningar stofnana almennt og hvað hann mundi telja dæmi um málefnalegar forsendur fyrir því að sameina stofnanir sem þessar, hvort aðallega ætti að huga að því að auka einhvers konar fjárhagslega hagkvæmni eða auka starfið eða bæta það og hvernig hv. þingmaður sér fyrir sér að hægt væri að ná þeim markmiðum með þinglegri meðferð.

Ástæðan fyrir því að ég spyr er að við erum að ræða málsmeðferðina gagnvart þinginu, þinglega meðferð og allt það. Í því samhengi eru útlendingalögin of nefnd og það ágæta samstarf sem þar hefur átt sér stað. Ég velti fyrir mér hvort það sé ekki það sem heitir á ensku „overkill“, ég kann ekki íslenska orðið yfir það, virðulegi forseti. Hefði ekki verið nóg að tala við fagaðila, hlusta aðeins meira á fagaðila og hagsmunaaðila í þessu máli frekar en að stofna endilega til rosalegs samstarfs? Ég er alveg sammála því að það hefði mátt koma að sameingarmálum með því að tala fyrst við þingflokka, en ég efast um að það hefði þurft heila nefnd í málið. (Forseti hringir.) Hver er afstaða hv. þingmanns til þess?