145. löggjafarþing — 91. fundur,  18. mars 2016.

menningarminjar o.fl.

606. mál
[16:55]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Nei, ég tel ekki að það þurfi þverpólitíska nefnd til að undirbúa svona frumvarp. Ég nefndi hins vegar dæmi um mál sem voru vel unnin að mínu viti. Þar á meðal er útlendingafrumvarpið, þar var þverpólitísk nefnd. Við fengum millidómstigið hingað inn og ég get ekki séð annað en að það sé vel unnið frumvarp. Það fær auðvitað yfirferð í allsherjar- og menntamálanefnd og mögulega munum við sjá einhverja agnúa á því, en það er hins vegar ágætlega unnið, það var engin þverpólitísk nefnd á bak við það. Svo nefndi ég líka dæmi eins og afnám hafta og svoleiðis. Þar var nefnd. Það er allur gangur á þessu. En alla vega er hægt að hafa samráð, það er hægt að gera það á margan hátt. Ég held að augljóst sé að í þessu máli þurfi að hafa samráð við fagaðila.

Ég sagði að mér fyndist furðulegt að koma með þetta mál hingað inn þegar það er nýbúið að samþykkja umgjörð þessara mála. Það var gert árið 2012 og þá var Minjastofnun sett á fót. Það verður í öllu falli að leyfa þeirri reynslu að verða til og draga svo lærdóm af henni. Það hefur ekki verið gert.

Hv. þingmaður veltir fyrir sér hvort ég sé á móti sameiningunni. Ég get ekki séð að hún sé vel rökstudd, nei, vegna þess að það er þarna ákveðið grundvallaratriði sem snýr að aðskilnaði í stjórnsýslu annars vegar og rannsókna hins vegar og verið er að brjóta gegn því. Það er vegið að sjálfstæði og í rauninni tilvist Þjóðminjasafnsins sem öflugrar rannsóknareiningar á Íslandi. Mér finnst sameiningin því mjög óráðleg og ég legg við hlustir þegar fagaðilar gagnrýna hana. Ég er hins vegar ekki í prinsippinu á móti sameiningum stofnana.

Þá kem ég að hinum þætti málsins, ef ég skipti því í tvo þætti, það er annars vegar sameiningin og hins vegar tilfærsla á valdi til ráðherra til að skera úr um og grípa inn í einn síns liðs, liggur við, í máli sem getur haft mikil áhrif. Ég er prinsippinu á móti því. (Forseti hringir.) Ég er algjörlega á móti því og mun láta þau sjónarmið betur í ljós.