145. löggjafarþing — 91. fundur,  18. mars 2016.

menningarminjar o.fl.

606. mál
[17:16]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni fyrir ágæta ræðu. Hann saknaði umræðu og samræðu um málið. Ég skal reyna að taka það að mér að eiga samræðu við hv. þingmann um málið og þekki nú aðeins til málaflokksins, enda hefur hann gengið í gegnum miklar breytingar á undanförnum árum.

Það er ekki lengra síðan en árið 2011 að hér voru samþykkt ný lög um menningarminjar. Síðan voru Fornleifavernd Íslands og húsafriðunarnefnd sameinaðar í eina stofnun, Minjastofnun. Árið 2013 tók sú sameining gildi. Hugsunin á bak við allar þær breytingar var að halda í þau sjónarmið sem höfðu í raun komið fram 2001, um að aðskilja stjórnsýslu minjaverndar annars vegar og safna- og rannsóknarstarfsemi hins vegar.

Segja má að með frumvarpi hæstv. forsætisráðherra sé algjörlega horfið af þeirri braut. Það kemur mér á óvart síðan þegar ég les fýsileikakönnun sem liggur til grundvallar frumvarpinu, þar sem einmitt er rætt um að talsvert samráð hafi verið haft við aðila, að þar virðist eingöngu hafa verið rætt við starfsmenn stofnana. Ekki er rætt við þá aðila sem þurfa að eiga samskipti við þessar stofnanir. En hins vegar er því slegið föstu í fýsileikakönnuninni að sameiningin muni skapa mikla einföldun í málaflokki minjaverndar á Íslandi frá sjónarhóli almennings. Ég veit nú ekki hvort almenningur hefur upplifað eitthvert sérstakt flækjustig í minjavernd á Íslandi. Ég leyfi mér að draga það í efa almenningur hafi upplifað eitthvert sérstakt flækjustig í minjavernd á Íslandi, ekki frekar en aðrir aðilar, hagsmunaaðilar, þ.e. þeir sem eiga að vinna samkvæmt lögunum. Þó að umsagnir hafi ekki borist um málið enn þá liggur það fyrir að hagsmunaaðilarnir sem vinna eiga að samkvæmt lögunum eru þegar farnir að andmæla. Þeir benda á það að ekkert samráð hafi verið við þá haft við samningu þessa frumvarps.

Mig langar að spyrja hv. þingmann um vinnubrögðin þegar verið er að vinna að svona málum: Hvað finnst honum um þessi vinnubrögð (Forseti hringir.) þar sem ályktanir eru dregnar án þess að það virðist hafa verið rætt við nokkurn mann til þess að (Forseti hringir.) rökstyðja þessa ályktun?