145. löggjafarþing — 91. fundur,  18. mars 2016.

menningarminjar o.fl.

606. mál
[17:20]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Já, hv. þingmanni verður tíðrætt um vinnubrögðin á Alþingi og hjá framkvæmdarvaldinu. Þá er áhugavert að lesa fýsileikagreininguna á breyttri stofnanaskipan í málaflokki menningarminja sem liggur til grundvallar frumvarpinu þar sem sérstaklega er rætt um nauðsyn þess að efla sameiginlega innri menningu um hið þjónandi stjórnvald. Ég velti því nákvæmlega fyrir mér hvernig hið þjónandi stjórnvald birtist sem leggur hér fram frumvarp um sameiningu stofnana, að því er virðist þvert á vilja þeirra sem þurfa að vinna með þessum stofnunum, hvernig nákvæmlega hið þjónandi stjórnvald lýsir sér með því að hafa ekkert samráð við þá sem þurfa að vinna með þessum stofnunum, ég tala nú ekki um þverpólitískt samráð sem tíðkast náttúrlega afar sjaldan á Alþingi. Þó að hér sé talað um hið þjónandi stjórnvald held ég að erfitt sé að greina það í þessu frumvarpi og þeim málatilbúnaði sem þar er að baki.

Ég veit ekki hvort hv. þingmaður hefur kynnt sér fýsileikagreininguna, en þar er rætt og reifað að skipulag stofnunarinnar geti opnað á viðbótarsameiningu verkefna annarra höfuðsafna, þ.e. Listasafns Íslands og Náttúruminjasafns Íslands inn í þau svið sem fyrir eru í sameinaðri stofnun. Ég velti því fyrir mér hvers konar menningarpólitík birtist hér. Á þetta að vera fyrsta skrefið í því að fækka menningarstofnunum á Íslandi? Eigum við að viðurkenna það sem þjóð að við höfum ekki einu sinni burði til þess að reka hér þrjú höfuðsöfn? Að Ísland geti ekki rekið höfuðsafn á sviði íslenskrar myndlistar? Að við ráðum bara ekki við það verkefni? Er það ætlunin að undir Minjastofnun verði sett öll íslensku höfuðsöfnin? Á það er svo sannarlega opnað í fýsileikagreiningunni.

Mér finnst nú menningarpólitíkin vera orðin ansi dauf hjá þessari þjóðmenningarstjórn, sem svo kaus að kalla sig þegar hún kynnti sig til leiks á Laugarvatni, að hér eigi (Forseti hringir.) bara að leggja niður öll höfuðsöfn í landinu, því að það er ein undirstaðan í fýsileikagreiningunni.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Hvað finnst honum um svona breytingar (Forseti hringir.) á menningarstefnunni í landinu sem lagðar eru fram með þessum hætti?