145. löggjafarþing — 91. fundur,  18. mars 2016.

menningarminjar o.fl.

606. mál
[17:49]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Mér fannst eftirtektarverð orð þingmannsins um greinargerðina þar sem hún fór yfir að skýrt væri frá breytingunum og lögunum sem urðu til árið 2001 og það að síðan var þeim lögum aftur breytt árið 2013 eftir mikla vinnu, en hv. þingmaður segir að skautað sé yfir það allt í greinargerðinni. Ég held ekki að það hafi komið fyrir mig fyrr, virðulegi forseti, en þegar ég var að lesa þessa greinargerð fór ég allt í einu að hugsa með mér hvort ég gæti treyst því sem stæði í henni. Er þetta sagan eins og hún var? Yfirleitt þegar farið er yfir forsögu málsins eða því um líkt fær maður góða yfirsýn yfir hlutina en mér sýnist eins og hv. þingmanni að hér sé skautað yfir söguna. Það er nefnilega það sem er gert og þess vegna er ekki alveg hægt að treysta forsögunni og greinargerðinni. Maður hefur ekki heildarsýnina vegna þess að skautað er yfir breytingarnar sem gerðar voru árið 2013.

Þau eru ábyggilega ekkert heilög, lögin sem voru samþykkt 2013, en eftir að hafa kynnt mér þetta mál held ég að ef það ætti að breyta lögunum ætti að breyta þeim í þá veru að treysta enn þá meira aðskilnað stjórnsýslunnar og safnanna og jafnvel færa þessa stjórnsýslu (Forseti hringir.) og stjórnsýslu annarra menningarmála saman, en klárlega skilja alveg á milli rannsókna og stjórnsýslu.