145. löggjafarþing — 91. fundur,  18. mars 2016.

menningarminjar o.fl.

606. mál
[17:52]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að það væri ástæða fyrir hv. þingnefnd sem fær málið til meðferðar til að fara yfir löggjöfina frá 2011 og 2013, því að það er ekki gert í þessari greinargerð. Hér stendur á bls. 9 talsvert um lögin 2001. Síðan er sagt að árið 2013 hafi verið samþykkt ný lög um safnastarf og þjóðminjavörslu og ný stofnun, Minjastofnun, hafi tekið við. Sama ár hafi tekið gildi sérstök lög um Þjóðminjasafn Íslands. Eftir þessar fjórar línur um lögin frá 2011 og 2013 segir að ákvörðun um uppskiptingu og verkefni á sviðum minjavörslu um síðustu aldamót, þ.e. lögin frá 2001, hafi skapað alls kyns vandamál og við því sé brugðist í þessu frumvarpi. Það er ekki mikið gert með þá vinnu sem stóð árum saman hér í þessari ágætu greinargerð.

Mér finnst líka mjög merkilegt þegar greinargerðin er skoðuð nánar að sagt er að haft hafi verið víðtækt samráð. Lagðar séu til ýmsar efnislegar breytingar á lögum um menningarminjar sem allar spretti upp úr víðtæku samráði hagsmunaaðila sem hafi kallað eftir ýmsum breytingum á lögunum sem séu nauðsynlegar til að skerpa á markmiðum laga um menningarminjar. Ef þetta víðtæka samráð hefur verið með þessum hætti hvernig stendur þá á því að þau viðbrögð sem við fáum frá þeim aðilum sem þurfa að vinna samkvæmt þessum lögum eru öll á sömu lund, þ.e. að ekkert samráð hafi verið haft og þeir leggjast gegn breytingunum? Ég fæ ekki séð að víðtækt samráð hafi átt sér stað, a.m.k. er ekki gerð mjög skýr grein fyrir því. Hins vegar er rætt talsvert um að það hafi verið uppi hugmyndir innan Stjórnarráðsins um að einfalda stofnanakerfi ríkisins og fækka minni stofnunum. Það er líka rætt að hér verði til skilvirkari og stærri stofnun, eins og ég sagði áðan, með minna flækjustig (Forseti hringir.) fyrir almenning í landinu. En ég finn hvergi hvað nákvæmlega kemur út úr því víðtæka samráði við hagsmunaaðila sem talað er um.