145. löggjafarþing — 91. fundur,  18. mars 2016.

menningarminjar o.fl.

606. mál
[18:31]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ræðuna. Ég hlýt að vera sammála honum um að það hefði verið gott ef hæstv. forsætisráðherra hefði viljað ræða hér við þingið um þau fjárhagslegu mál sem tengjast fjölskyldu hans og eru í bága, af því að hann vill ekki ræða þau, við þær siðareglur sem voru samþykktar hér í gær. Ég hefði kosið það, en við það ráðum við ekki. Ég er sammála hv. þingmanni um það.

Mér finnst allt bera að sama brunni, virðulegi forseti. Hér situr forsætisráðherra sem hlýtur að hafa gert það að kröfu, þegar hann samdi um ríkisstjórnarsamstarfið, að fá áhugamál inn í sitt ráðuneyti, og síðan er lagt fram frumvarp sem miðar að honum sjálfum og hann telur sig ekki þurfa að standa þinginu skil á því. Hann skrifar langar greinar og birtir á internetinu eða á vefmiðlum, en hann þarf ekki að standa þinginu skil á því. Hann getur hins vegar lagt fyrir þingið að það breyti lögum til að uppfylla óskir hans og þrár.

Mér finnst allt bera að sama brunni. Mér finnst eins og (Forseti hringir.) menn skilji ekki alveg að þeir eiga að vera auðmjúkir gagnvart valdinu en ekki hrokafullir.