145. löggjafarþing — 91. fundur,  18. mars 2016.

menningarminjar o.fl.

606. mál
[18:37]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, ég tek undir með hv. þingmanni aftur. Á undanförnum missirum og árum hefur opinberast ákveðið rof milli þings og ríkisstjórnar, milli löggjafarvalds og framkvæmdarvalds, með neikvæðum hætti, þ.e. ekki eins og við hefðum viljað sjá það. Það er vegna þess að ráðherrar ríkisstjórnarinnar hunsa þingið ítrekað, fara ítrekað fram hjá þinginu á ýmsum sviðum, beita ráðherraræðinu eins og þeir mögulega geta til að forðast það að koma með þingmál hingað inn í þingsalinn.

Nefnum einkavæðingu í heilsugæslunni. Nefnum takmörkun á skólagöngu fólks yfir ákveðnum aldri. Það var ekki lagt fyrir þingið, menn beittu ráðherraræðinu. Slíkt gerist þegar menn setja sjálfa sig ofar verkefnunum sem þeir hafa tekið að sér og var falið af kjósendum að vinna. Það leiðir aldrei til góðs.