145. löggjafarþing — 91. fundur,  18. mars 2016.

menningarminjar o.fl.

606. mál
[18:39]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Val Gíslasyni ræðuna og ég ætla að bera niður í ræðu hv. þingmanns þar sem hann talar mikið um skort á samráði, eða hreinlega fullyrðir að það sé ekkert samráð.

Við erum í 1. umr. og ég er að blaða mig í gegnum þetta frumvarp og greinargerð. Ég ætla að bera niður á bls. 16, með leyfi forseta, en þar segir:

„Í tengslum við samningu frumvarpsins unnu ráðgjafar Capacent með ráðuneytinu að gerð fýsileikakönnunar […]“

Í framhaldi af því segir:

„Í því skyni voru haldnir fundir með hagsmunaaðilum um valkosta- og fjárhagsgreiningu, viðtöl voru tekin við starfsmenn stofnananna ásamt því að ýmsar tillögur um sameiningar voru ræddar á fundum stýrihópsins.“

Ég held áfram í greinargerðinni. Neðst á bls. 16 segir:

„Haft var víðtækt samráð um efni þeirra tillagna á vinnslustigi. Þannig var leitað til fjölmargra hagsmunaaðila og þeim kynntar hugmyndir og tillögur að breytingum á lögum um menningarminjar sem unnið var að í ráðuneytinu fyrr í vetur.“

Ég hef í sjálfu sér engar aðrar forsendur en þessar þegar ég fer yfir frumvarpið og greinargerðina og stakar lagagreinar í 1. umr. Ég ber mjög mikla virðingu fyrir hlutverki þeirra stofnana sem við ræðum, bæði Þjóðminjasafnsins og Minjastofnunar, og þeim tillögum sem eiga að leiða til fjárhagslegs og faglegs ávinnings. Ég veit eiginlega ekki hver spurningin er. Mér finnst fulllangt gengið að fullyrða, eins og hv. þingmaður gerði, að ekkert samráð hafi verið haft, miðað við það sem kemur fram í greinargerð.